Vonast til að geta opnað veginn fljótlega

Vatn úr Skaftárhlaupi flæði yfir þjóðveg eitt á um 500 …
Vatn úr Skaftárhlaupi flæði yfir þjóðveg eitt á um 500 metra vegarkafla vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ljósmynd/Aðsend

Þjóðvegur eitt í Eldhrauni, vestan við Kirkjubæjarklaustur, er enn lokaður vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæðir yfir um 500 metra vegarkafla. Mjög mikið af vatni hefur safnast upp norðan við þjóðveginn. Vegagerðin hefur opnað rás við veginn til að hjálpa vatninu að renna frá.

„Vatnsflaumurinn hefur ekki aukist. Ef þetta minnkar aðeins meira getum við opnað veginn mjög fljótt,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is. Vatnsflaumurinn hefur skemmt vegaxlir. „Það fossar fram af veginum en klæðningin sjálf er ekki mikið skemmd,“ segir Ágúst. Starfsmenn Vegagerðarinnar sinna viðgerðum á traktorsgröfu og vörubíl.

Skaftárhlaup stendur enn yfir en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni heldur rennsli við Sveinstind áfram að lækka og mælist nú um 1.200 rúmmetrar á sekúndu. Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.

Ágúst segir að rennslið þurfi ekki að minnka mikið í viðbót svo hægt verði að opna veginn. Þegar það verður gert verður byrjað á að opna aðra akrein og verður umferðarstjórnun í höndum lögreglu.

Hjáleið hefur verið beint í gegnum Meðallandsveg, einbreiðan 53 kílómetra veg sem er malarvegur að hluta.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að umferðin um veginn gangi hægt en örugglega. Ökumenn sýni þolinmæði sem skiptir mestu. „Þetta er seinfarinn vegur, en það er værð yfir fólki í dag, sem er ágætt,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.  

Skaftárhlaup hefur staðið yfir frá því á föstudag.
Skaftárhlaup hefur staðið yfir frá því á föstudag. mbl.is/RAX
Jafnt og þétt dregur úr hlaupinu en gera má ráð …
Jafnt og þétt dregur úr hlaupinu en gera má ráð fyrir að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert