Vegurinn opinn fyrir stærri bíla

Ljósmynd/Björgvin Karl Harðarson

Þjóðvegur eitt um Eldhraun er nú opinn fyrir rútur og vel útbúna bíla. Veginum var lokað í morgun eftir að vatn úr Skaftárhlaupi flæddi inn á veginn og er hann enn lokaður fólksbílum. „Við ákváðum að opna veginn fyrir stórum bílum, en þeir fá tiltal frá okkur og fara yfir á eigin ábyrgð,“ segir Guðmundur Kristján Ragnarsson, starfsmaður Vegagerðarinnar í Vík. Hann vonast til að hægt verði að opna veginn allri umferð fyrir kvöldmat.

Hann er nú við Meðallandsveg, þangað sem annarri umferð er beint um vegna lokunarinnar. Guðmundur segir umferð um veginn hafa gengið vel. „Ferðamennirnir koma svoleiðis himinlifandi yfir veginn en það eru helst Íslendingar sem eru ósáttir við að þurfa að fara lengri leiðina.“ Meðallandsvegur er 53 kílómetra langur og þar af eru 23 kílómetrar á möl, auk þess sem vegurinn er einbreiður að hluta. Aðeins eitt óhapp hefur orðið á veginum þegar speglar tveggja bíla úr gagnstæðri átt rákust saman.

Mbl.is/Jónas Erlendsson

Í samtali við mbl.is segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, að lítið hafi breyst síðasta klukkutímann. „Vatnið rennur svo hratt að það minnkar ekkert á veginum,“ segir hann. Vegagerðin hefur þó opnað rásir meðfram veginum til að veita vatni frá.

Vegkaflinn, sem nú er lokaður almennri umferð, er um 500 metra langur en hann er um 1-2 kílómetra frá afleggjaranum að bænum Skál en sá var rofinn í gær til að veita vatni fram hjá í von um að það myndi hlífa þjóðveginum.

Það flæddi inn í suma bíla sem reyndu að keyra …
Það flæddi inn í suma bíla sem reyndu að keyra í gegnum vatnsflauminn áður en lögregla lokaði veginum. Ljósmynd/Björgvin Karl Harðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert