Rennsli í byggð fer minnkandi

Frá flugi ljósmyndara mbl.is yfir Skaftá um helgina.
Frá flugi ljósmyndara mbl.is yfir Skaftá um helgina. mbl.is/RAX

Rennsli Skaftár við Sveinstind fer nú mjög minnkandi og var nærri 400 m3/s á hádegi í dag. Rennsli í byggð fer einnig minnkandi og mun draga úr vatnsmagni í Skaftá næstu daga. Hins vegar er vatnsmagn í Grenlæk og Tungulæk enn að aukast. Þar skilar sér vatn sem runnið hefur út í Eldhraun og rennur svo út í lækina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þar segir einnig, að um hádegi föstudaginn 3. ágúst hafi verið venjulegt sumarrennsli í ánni (um 140 m3/s) en jókst þá skyndilega og var komið yfir 1.000 m3/s á miðnætti þann dag. Þann 4. ágúst jókst rennslið enn og náði hámarki um 2.000 m3/s á miðnætti. Sú tala gerir ráð fyrir framhjárennsli sem mælirinn við Sveinstind nemur ekki. Hlaupið er því með stærri hlaupum úr Eystri-Skaftárkatli.

Laugardaginn 4. ágúst var flogið yfir katlana og kom þá í ljós að hlaup væri einnig hafið úr Vestari-Skaftárkatli. Áhrif hlaupvatns úr honum koma fram sem eins konar „öxl“ á hlaupferlinum, sem sést á meðfylgjandi mynd.

Graf/Veðurstofa Íslands.

Við tæmingu katlanna léttir þrýstingi á jarðhitakerfinu undir lónunum og hvellsýður þá vatn undir jöklinum og óróahviður koma fram á skjálftamælum. Hviður með upptök í báðum kötlunum hafa nú verið greindar á mælum, að því er veðurstofan greinir frá.

Veðurstofan er nú að leggja lokahönd á úttekt á Skaftárhlaupinu 2015 og hættumat á afleiðingum Skaftárhlaupa. Þær skýrslur sem þegar eru tilbúnar er að finna hér.

Þar kemur meðal annars fram að vatnshæð og þar með útbreiðsla flóða í Eldhrauni stjórnast mikið af grunnvatnsstöðu; þ.e. útbreiðsla hlaupvatns á yfirborði verður mun meiri þegar grunnvatn stendur hátt. Þessu til útskýringar er meðfylgjandi mynd af vatnsstöðu í hverjum mánuði fyrir sig í borholu í Eldhrauni.

Graf/Veðurstofa Íslands

Á myndinni er einnig sýnd hækkun grunnvatnshæðar samfara þremur hlaupum úr Eystri-Skaftárkatli. Hlaupið 2006 hefur átt sér stað við lága vatnsstöðu eða vatnsstöðu undir meðalgrunnvatnshæð en hlaupin 2008 og 2010 við fremur háa grunnvatnsstöðu að sögn veðurstofunnar.

Þegar hlaupvatnið hættir að renna í hraunin fellur grunnvatnshæð að fyrri stöðu. Rennsli í Grenlæk og Tungulæk minnkar um helming á um það bil 7-10 dögum eftir hlaup þar til það nær jafnvægi.

Hlaupvatnið er mjög gruggugt og setið sem berst í hraunið með vatninu stíflar hraunið með tímanum og leitar fram við endurtekin flóð eins og sést vel á meðfylgjandi mynd úr einni af skýrslunum úr hættumatsverkefninu.

Kort/Veðurstofa Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert