Andlát: Helgi Þröstur Valdimarsson

Helgi Þröstur Valdimarsson.
Helgi Þröstur Valdimarsson.

Helgi Þröstur Valdimarsson, læknir og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, lést aðfaranótt mánudags, 81 árs að aldri. Helgi var fæddur í Reykjavík 16. september 1936. Foreldrar hans voru Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir, húsmóðir og rithöfundur, og Valdimar Jónsson sjómaður.

Helgi tók kandídatspróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1964. Síðar lagði hann stund á ónæmisfræði í Bretlandi og var mikill frumkvöðull í faginu. Eftir hann liggja margar greinar og skrif í vísindatímaritum en Helgi var virtur vísindamaður bæði hérlendis og erlendis. Hann vann við Hammersmith-sjúkrahúsið í London og var síðar dósent og yfirlæknir við St. Mary's sjúkrahúsið í London á árunum 1975 til 1981, en hann bjó í Bretlandi um þrettán ára skeið ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, alþingiskonu og fv. forstjóra Krabbameinsfélags Íslands.

Helgi kenndi ónæmisfræði við Háskóla Íslands, bæði meðan hann dvaldi erlendis og eftir að hann kom heim úr sérnámi og varð prófessor við skólann árið 1981. Helgi var varaforseti læknadeildar HÍ frá árinu 1987 til ársins 1992 og forseti deildarinnar frá 1992 til 1996.

Einnig sat Helgi í stjórn Læknafélags Íslands og í stjórn ónæmisfræðideildar Royal Society of Medicine í Bretlandi og var forseti samtaka norrænna ónæmisfræðifélaga 1992 til 1998.

Á árunum 1978 til 2000 var hann andmælandi við tólf doktorsvarnir á Íslandi og í Bretlandi en hann var sjálfur leiðbeinandi fjölmargra doktorsnema.

Helgi var mikill útivistarmaður og fóru þau Guðrún gjarnan í göngur ásamt því að vera skógarbændur í Svarfaðardal en þaðan var Helgi ættaður.

Helgi og Guðrún eignuðust þrjú börn; Birnu Huld, blaðakonu og kennara, Agnar Sturlu mannfræðing og Kristján Orra lækni. Áður var Helgi kvæntur Ólöfu Ásgeirsdóttur húsmóður og eignuðust þau tvö börn; Ásgeir Rúnar, dósent í heilsusálfræði, og Valdimar aðstoðarskólastjóra. Helgi lætur einnig eftir sig tólf barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »