Handteknar í baráttu fyrir son og bróður

Móðir og systir manns sem glímir við geð- og fíknivanda …
Móðir og systir manns sem glímir við geð- og fíknivanda voru handteknar í gær eftir að Landspítalinn neitaði að halda manninum í einn dag til viðbótar þar til forræðismaður hans gat komið að máli. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Kerfið virðist ætlast til þess að það megi bara glíma við geðræn vandamál milli klukkan níu og fimm á virkum dögum,“ segir Kolbeinn Karl Kristinsson í samtali við blaðamann mbl.is. Móðir og systir Kolbeins voru handteknar í gær eftir að þær neituðu að yfirgefa Landspítalann, en útskrifa átti bróður hans, sem glímir við geð- og fíknivanda, af spítalanum. Fjölskyldan vildi að hann fengi að dvelja á spítalanum í einn dag til viðbótar, eða þar til forráðamaður hans kæmi til landsins, þar sem bróðirinn er ekki sjálfráða.

Kolbeinn Karl Kristinsson.
Kolbeinn Karl Kristinsson. Ljósmynd/Aðsend

Kolbeinn lýsir í ítarlegum pistli á Facebook í kvöld reynslu fjölskyldunnar af geðheilbrigðiskerfinu. Hann segir kerfið „algjörlega brotið“. Landspítalinn hafi útskrifað bróður hans þrátt fyrir að hann þurfi á langtímaúrræði að halda. Þar fyrir utan sé bróðir hans ekki með neitt húsnæði.

Samkvæmt Kolbeini hefur bróðir hans glímt við geð- og fíknivanda í um 20 ár og eftir mikla baráttu hafi fjölskyldunni tekist að fá hann sviptan sjálfræði svo hann gæti ekki útskrifað sig sjálfur. Bróðirinn hafi meðal annars verið vistaður á Kleppi í 7 mánuði þar sem hann hefur fengið umfangsmiklar greiningar og það sem hefur staðið til boða við útskrift eru úrræði sem eru allt of opin að mati Kolbeins.

„Þetta er bara allt eða ekkert,“ segir Kolbeinn. „Það er enginn millivegur í úrræðum og svo 1 til 2 vikum eftir að hann kemur út er hann bara fallinn.“

Gátu ekki beðið einn dag

Bróðir Kolbeins var nýverið lagður inn á Landspítalann í annarri tilraun fjölskyldunnar til þess að fá hann lagðan inn, en þá hafði faðir Kolbeins lagt fram úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að bróðirinn væri sviptur sjálfræði. „Þar kemur skýrt fram að hann er alfarið ófær um að standa á eigin fótum,“ staðhæfir Kolbeinn.

Eftir að bróðirinn var lagður inn á Landspítalann var fjölskyldunni tjáð að hann yrði færður yfir á fíknigeðdeild, en úr því varð aldrei. Í stað þess átti að útskrifa bróðurinn tafarlaust að sögn Kolbeins. „Hann var lagður inn og allt í einu er hann útskrifaður upp úr þurru, beint út á götu,“ segir hann.

„Við vorum að biðja spítalann um að bíða einn dag með að útskrifa hann þar sem hann hefur verið sviptur sjálfræði og forráðamaðurinn var staddur erlendis, en þau gátu ekki beðið einn dag. Manni er bara vísað frá og allar reglur brotnar,“ segir Kolbeinn.

Hunsað af lækni

Kolbeinn segir fjölskylduna hafa farið á Landspítalann til þess að reyna að sannfæra starfsfólk spítalans um að bíða með útskriftina í einn dag. Hann segir móttökurnar ekki hafa verið hlýjar á spítalanum og að starfsfólkið hafi ekki viljað hlusta á rök fjölskyldunnar. Þau báðu um að fá að ræða við lækni og biðu í um klukkutíma þar til læknirinn á deildinni kom til þess að ræða við þau.

„Ég heilsa sérfræðilækninum rólega og reyni að fara yfir málið og hún grípur bara fram í og talar til okkar með hroka. Hún segir við bróður minn: „Þau hafa nú aldeilis trú á þér.“ Svo beita þau því að segja að þetta sé ekki búsetuúrræði, en það er ekki það sem við vorum að fara fram á. Það skiptir mig ekki máli hvort hann sé heimilislaus eða ekki, ég vildi bara að hann fengi viðeigandi meðferð,“ segir Kolbeinn.

„Mamma sagði bara hingað og ekki lengra“

Lögreglan mætir á staðinn þar sem fjölskyldan neitaði að fara og segist Kolbeinn hafa farið yfir lögin með lögreglunni. Hann segist hæstánægður með aðkomu lögreglunnar. „Lögreglan stóð alla leið við bakið á okkur og reyndi að fá spítalann til þess að halda bróður mínum í einn dag í viðbót.“

Þegar ekki var orðið við beiðni fjölskyldunnar segist Kolbeinn hafa ákveðið að fara með bróður sinn út í bíl. „En mamma sagði bara hingað og ekki lengra. Héðan fer ég ekki og ef þið viljið handtaka þá gerist það bara,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið aðferð móður hans til þess að mótmæla aðferðum spítalans. Bæði móðir og systir Kolbeins neituðu að yfirgefa staðinn og voru þær fyrir vikið handteknar og bornar út.

„Það er alveg ótrúlegt að kerfið standi ekki með sjúklingum. Manni yrði ekki vísað frá ef maður væri með beinbrot eða aðra kvilla. Við viljum bara að bróðir minn fái þá meðferð sem hann á rétt á,“ segir Kolbeinn. Hann segir fjölskylduna ekki ætla að gefast upp í baráttunni fyrir því að bróðir hans fái viðeigandi meðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert