Þjóðvegurinn um Eldhraun opnaður

Þjóðveginum um Eldhraun var lokað á laugardag en hefur nú …
Þjóðveginum um Eldhraun var lokað á laugardag en hefur nú verið opnaður aftur. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Þjóðvegur eitt um Eldhraun var opnaður almennri umferð á ný um klukkan níu í morgun. Vegkaflinn hafði verið lokaður síðan á laugardag vegna vatns sem hefur flætt inn á veginn úr Skaftárhlaupi.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að enn flæði vatn yfir veginn en það hefur þó sjatnað nægilega til að ákveðið hafi verið að hleypa almennri umferð í gegn. Vatnið hefur brotið upp úr vegköntum báðum megin og þykir ekki óhætt að keyra nema á miðjum veginum.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, segir að umferð verði því aðeins opin í aðra áttina í senn og skipt á milli á nokkurra mínútna fresti.

Vegkaflinn, sem nú hefur verið opnaður á ný, er aðeins um 500 metra langur, um það bil 1-2 kíló­metra frá af­leggj­ar­an­um að bæn­um Skál. Síðustu daga hefur umferð verið beint um Meðallandsveg sem er 53 kílómetra langur vegur, að hluta til malarvegur og einbreiður.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is