Brottfararspjald skilyrði fyrir tollfrelsi

Ferðalangar þessir hafa að líkindum þurft að framvísa brottfararspjaldi þegar …
Ferðalangar þessir hafa að líkindum þurft að framvísa brottfararspjaldi þegar þeir komu að kassanum. mbl.is/Sigurgeir S.

Ferðalangar á leið úr landi hafa að líkum tekið eftir því að framvísun brottfararspjalds er skilyrði fyrir því að hægt sé að kaupa varning í flugstöðinni í Keflavík.

Reglurnar voru teknar upp 1. mars að kröfu tollstjóra, á grundvelli 104. greinar tollalaga, sem þó hefur staðið síðan 2011. Í ákvæðinu segir m.a. að eingöngu sé heimilt að selja farþegum og áhöfnum millilandafara á leið úr landi vörur úr tollfrjálsri verslun gegn framvísun brottfararspjalds.

Aðspurður hvort tollstjóri safni upplýsingum um farþega svarar Guðmundur Jóhann Árnason, lögfræðingur hjá tollasviði tollstjóra: „Tollstjóri tekur engar upplýsingar úr þessu. Tollstjóri fer fram á við skönnun á brottfararspjaldinu að það sé kallað eftir flugtímanum, þ.e.a.s. að brottför sé innan 24 tíma, og söluaðila, þannig að ef eitthvað kemur upp þá getum við kallað eftir þeirri færslu í eftirlitskerfinu eða eitthvað slíkt. En við söfnum engum upplýsingum.“ 

Starfsmenn geta ekki verslað

Spurður hvers vegna sambærilegar reglur eigi ekki við þegar farþegar koma til landsins vísar Guðmundur í lagaákvæðið, sem kveður einungis á um framvísun spjalds við brottför úr landi og bætir við:„ Í raun er krafan sú að þegar þú ætlar að versla í brottfararverslun þarftu að fara með vöruna út. Þess vegna þarftu að vera með brottfararspjald. Það er m.a. til þess að koma í veg fyrir að starfsmenn eða einhverjir aðilar geti verslað þar án gjalda og farið bara beint niður í komuverslun og í gegn. Svo er líka atriði í þessu að gallinn við flugvöllinn er sá að þegar þú kemur erlendis frá þá er ekki skýr afmörkun á milli brottfararverslana og komuverslunar.“ Hann bendir einnig á að út frá samkeppnissjónarmiðum sé ekki heimilt að selja sumar vörur í komuverslun sem seldar eru í brottfararverslunum, og komi því reglurnar í veg fyrir að hægt sé að versla í brottfarverslun við komu til landsins.

Spurður hvers vegna reglurnar hafi ekki komið til framkvæmda fyrr segir Guðmundur: „Það var sent bréf á alla leyfishafa 2011 í framhaldi af lagasetningunni. Þá var vandamálið tæknilegs eðlis. Þetta hefur svolítið hangið í kerfinu út af því. Svo var bara farið af stað af fullum þunga núna af því að við töldum bara allt of langan tíma liðinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert