Hlaupandi brúður í Reykjavíkurmaraþoni

Nái Helga Sóley settu markmiði í áheitasöfnuninni hyggst hún hlaupa …
Nái Helga Sóley settu markmiði í áheitasöfnuninni hyggst hún hlaupa með brúðarslörið á sér. mbl.is/Ófeigur

„Síðustu 2 ár hef ég staðið á hliðarlínunni og fylgst með bróður mínum koma í mark eftir 10 kílómetra hlaup. Eftir hlaupið í fyrra ákvað ég að ég skyldi taka þátt að ári liðnu og láta gott af mér leiða,“ segir Helga Sóley Hilmarsdóttir. Helga kemur til með að hlaupa til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands í Reykjavíkurmaraþoninu 18. ágúst en síðar þann sama dag ætlar hún að gifta sig.

Helga segir að brúðkaupsdagurinn hafi verið nýákveðinn þegar hún mundi eftir hlaupinu. „Við vorum tiltölulega nýbúin að festa niður daginn og búin að bóka sal þegar ég átta mig á því að hlaupið yrði sama dag.“

Helga segist þó hafa tekið þá ákvörðun samstundis að láta brúðkaupið ekki standa í vegi fyrir hlaupinu og nýta þess í stað tækifærið til að vekja enn frekari athygli á söfnun sinni fyrir Krabbameinsfélagið.

Helga Sóley.
Helga Sóley. Ljósmynd/Aðsend

Móðurbróðir Helgu lést úr krabbameini í fyrra sem er ástæðan fyrir því að Krabbameinsfélagið varð fyrir valinu. Þá segir hún krabbamein vera málefni sem snerti flesta á einhvern hátt líkt og það hafði áhrif á hennar eigin fjölskyldu.

Helga hyggst hlaupa tíu kílómetra og hefst hlaupið klukkan 9:35 og á brúðkaupið að hefjast um fjórum klukkustundum síðar, eða klukkan 13:30. „Ég er búin að skipuleggja mig í þaula og er markmiðið að ná þessu á 80 mínútum svo að ég hafi tvo og hálfan tíma til að gera mig til og koma mér í kirkjuna á tilsettum tíma,“ segir hún.

Þá hafi brúðkaupsgestir verið þokkalega duglegir að heita á brúðina verðandi þó að margir séu að hlaupa sjálfir.

Helga ásamt unnusta sínum og sonum.
Helga ásamt unnusta sínum og sonum. Ljósmynd/Aðsend

Helga segir hlaupið einungis gera stóra daginn enn eftirminnilegri og vera frábæra leið til þess að láta gott af sér leiða og stuðla að bættri heilsu á sama tíma. „Sérstaklega ef ég næ markmiðinu sem ég setti mér,“ bætir hún við en söfnunarmarkmið Helgu er 100.000 krónur. Nái helga því markmiði hyggst hún svo hlaupa með brúðarslörið á sér.

Undirbúningur fyrir hlaupið hefur gengið ágætlega að sögn Helgu þó að það hafi reynt meira á en ella sökum undirbúnings fyrir brúðkaupið.

„Það hefur bara gengið þokkalega vel. Vissulega hef ég fengið að finna fyrir beinhimnubólgu og þreytuverkjum í fótum en það hvatti mig í göngugreiningu. Ég má ekki við neinum slíkum aukakvillum á stóra deginum.“

Aðspurð segir Helga að brúðguminn verði fjarri góðu gamni í hlaupinu í þetta sinn, enda verði á nógu að taka á öðrum sviðum. „Hann verður bara í rólegheitum ef svo má kalla, að gera sig og syni okkar til fyrir komandi dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert