Staðfest gæsluvarðhald vegna vopnaðs ráns

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður sem handtekinn var fyrir vopnað rán í verslun í Reykjavík 4. ágúst síðastliðinn skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. ágúst næstkomandi.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að samkvæmt vitnum og upptökum úr öryggismyndavélum hafi maðurinn komið inn í verslunina, ásamt meðákærða, þeir hafi verið íklæddir hettupeysum  með sólgleraugu og verið vopnaðir skrúfjárni og hamri. Mennirnir hafi öskrað og hótað starfsmanni verslunarinnar og heimtað peninga úr sjóðsvél. Þeir hafi í kjölfarið reynt að brjóta upp peningaskúffu sjóðsvélarinnar, en starfsmaðurinn opnaði hana að lokum. Þeir hafi þá tekið ótilgreint magn peningaseðla áður en þeir hlupu út úr versluninni og flúðu á bifreið.

Skömmu eftir miðnætti voru mennirnir svo handteknir þar sem þeir voru staddir í bifreiðinni á bílastæði, en ummerki um fíkniefnaneyslu voru þar greinileg.

Í greinargerðinni segir að framburður mannanna beri þess merki að þeir hafi verið undir áhrifum vímuefna, en játning þeirra beggja liggur fyrir.

Er það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og að óforsvaranlegt þyki að ákærði gangi laus þegar sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök.

Héraðsdómur féllst á rök lögreglu en þar sem málið virðist að mestu upplýst var gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími en lögregla krafðist. Landsréttur staðfesti svo úrskurðinn óbreyttan í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert