Taka á strokum úr fangelsi af mikilli festu

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að strok úr fangelsi hafi áhrif …
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að strok úr fangelsi hafi áhrif á allan framgang í afplánun fanga. mbl.is/Hari

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að strok úr fangelsi hafi áhrif á framgang afplánunar viðkomandi fanga og tekið sé á slíkum málum af festu innan fangelsanna. Hann segir að fangar sem strjúka af áfangaheimilum eigi þá ekki afturkvæmt í opið fangelsi að svo stöddu eftir slíkt brot á trausti. 

Mbl.is greindi frá því í dag að lögreglan hefði handtekið Björn Daníel Sigurðsson, fanga sem ekki skilaði sér á áfangaheimilið Vernd á laugardag, eftir um fjögurra daga leit. 

„Það sem gerist ef einstaklingar strjúka úr afplánun er að þeir eru þá færðir í lokað fangelsi til þess að ljúka afplánun sinni. Þetta hefur afleiðingar fyrir hvern fanga fyrir sig. Það þarf þá að meta hæfi viðkomandi til þess að eiga einhvern framgang í afplánun eða varðandi reynslulausn og þess háttar. En það er eitthvað sem þá yrði skoðað hverju sinni,“ segir Páll. 

Páll segir að strjúki fangi úr afplánun hafi það áhrif á allan framgang í refsivistinni. Viðkomandi eigi þá ekki möguleika á afplánun á áfangaheimili né undir rafrænu eftirliti að svo stöddu. 

„Þetta er brot á trausti og þetta eru ein alvarlegustu agabrotin sem eiga sér stað. Við tökum mjög ákveðið á agabrotum sem skipta miklu máli, þ.e.a.s. ofbeldi og strokum úr fangelsi. Það er meðal grófustu agabrotanna og það er tekið á þeim af mikilli festu,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert