„Við erum bara klökk“

Bróðir Kolbeins fékk ekki að dvelja í einn auka sólarhring …
Bróðir Kolbeins fékk ekki að dvelja í einn auka sólarhring á geðdeild Landspítalans eða þar til forráðamaður hans gat komið að málum. Kolbeinn segir fjölskylduna hafa fengið mikinn stuðning í kjölfar umfjöllunar um málið. mbl.is/Hari

„Stuðningurinn er alveg ótrúlegur; við erum bara klökk,“ segir Kolbeinn Karl Kristinsson í samtali við blaðamann mbl.is. Hann segist hafa fengið gífurlegt magn stuðningsyfirlýsinga í kjölfar þess að mbl.is fjallaði í gær um handtöku móður hans og systur eftir að þær neituðu að yfirgefa Landspítalann. Fjölskyldan hyggst senda Landspítalanum formlega kvörtun og heilbrigðisráðherra erindi vegna framgöngu spítalans í máli bróður hans.

Fjölskyldan sá ýmislegt að verkferlum við spítalann eftir að bróðir Kolbeins var útskrifaður af Landspítala á þriðjudag, en áður hafði staðið til að hann yrði færður yfir á fíknigeðdeild. Úr því varð hins vegar aldrei og mótmælti fjölskyldan ákvörðun lækna við spítalann.

Móðir Kolbeins og systir neituðu að yfirgefa spítalann fyrr en bróðir hans fengi að dvelja í einn sólarhring til viðbótar á spítalanum, en bróðir hans glímir við geð- og fíknivanda. Að lokum voru þær handteknar og bornar út.

„Facebook hefur farið á hliðina bara. Maður hefur fengið alveg ótrúlega jákvæð viðbrögð, fólk hefur komið upp að manni úti á götu, allir að tala við mann á Facebook og allir að hringja í mann,“ segir hann.

Engin viðbrögð frá Landspítalanum hafa borist fjölskyldunni að svo stöddu, en lögmaður bróður hans sem fer með forræði yfir honum á eftir að funda með fulltrúum spítalans að sögn Kolbeins.

Í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is kemur fram að Landspítalinn tjái sig ekki um einstök mál og muni starfsmenn ekki veita viðtöl vegna málsins.

Kolbeinn Karl Kristinsson.
Kolbeinn Karl Kristinsson. Ljósmynd/Aðsend

Enn vongóður

Samkvæmt Kolbeini hyggst fjölskyldan senda Landspítala formlega kvörtun í dag vegna málsins, einnig verður sent erindi til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að sögn hans. „Ég vil samt taka það fram að heilbrigðisstarfsfólk er að standa sig alveg frábærlega en þarna er ákveðin brotalöm, bæði hvað varðar skipulag og fjármögnun og svo í sambandi við fordóma,“ segir Kolbeinn.

Hann segir enn fremur þörf á umbótum í geðheilbrigðismálum. „Nú þarf að vera einhver brotpunktur í heilbrigðismálum þeirra sem eru með geðfatlanir og fíknigeðfatlanir. Kerfið eins og það er í dag það gerir ekki ráð fyrir svona veikum einstaklingum. Það þarf einhver langtímaúrræði.“

Spurður hvort hann sé bjartsýnn um framhaldið svarar Kolbeinn því játandi. „Ég held maður geti aldrei verið annað en bara vongóður um framhaldið þegar maður er í svona baráttu. Ef maður hefði ekki von gæti maður ekki staðið í þessu. Ég vona að þetta verði ákveðinn brotpunktur bæði hjá honum og hjá kerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert