Dróninn lét sig bara hverfa

Ekki er heim­ilt að fljúga dróna á 2 kíló­metra svæði …
Ekki er heim­ilt að fljúga dróna á 2 kíló­metra svæði út frá áætl­un­ar­flug­völl­um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þyrluflugmaður sem tilkynnti um dróna í morgun segist ekki hafa verið í hættu. Stjórnandi drónans fannst ekki heldur hvarf dróninn á braut skömmu eftir að tilkynnt var um hann.   

Flug dróna á athafnasvæði Reykjavíkurflugvallar er bannað, enda getur árekstur við önnur loftför verið stórhættulegur. Þyrluflugmaðurinn Jón K. Björnsson var á leið í útsýnisflug í morgun þegar hann sá meðalstóran dróna álengdar í um 800 fetum. Jón tilkynnti það til flugturnsins, sem tilkynnti svo lögreglu um málið.

„Drónar eiga ekkert með að vera í lofthelgi flugvallar. Það er mikið um að vera á Reykjavíkurflugvelli í góðu veðri og við getum ekki haft óboðna gesti inni á okkar svæði,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Sökudólgurinn ófundinn

Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að sá sem stýri dróna geti verið hvar sem er.

„Þeir drífa hátt í 10 km þannig að það er ekkert sem við gátum gert. Hann bara hvarf.“ Hann beinir því til þeirra sem fljúga svona tækjum í miðbænum að halda sig utan lofthelgi flugvallarins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona gerist. Til dæmis skapaðist hætta við Tjörnina í fyrra. Þess má geta að lögreglan á Norðurlandi hefur bannað umferð dróna á Fiskideginum mikla um helgina. Þá er flug dróna bannað víða á vinsælum ferðamannastöðum hérlendis, eins og við Gullfoss og Geysi.

Hér má finna reglur Samgöngustofu um þessi efni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert