Fínt útihátíðarveður um helgina

Úr gleðigöngunni í fyrra. Í ár ætti göngufólk að sleppa …
Úr gleðigöngunni í fyrra. Í ár ætti göngufólk að sleppa við mesta rigningu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Veðurspáin fyrir helgina er sæmileg. Í Gleðigöngunni á morgun ætti að vera nokkuð hlýtt og að mestu þurrt. Á Dalvík á Fiskideginum er enn betra veðri spáð og síður en svo útilokað að sólin gægist út.

Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofunni segir mbl.is þetta. Í Reykjavík verður Gleðigangan gengin kl. 14. Það verður einhver blástur og kannski verður ekki alveg þurrt en ætti að vera „fínt útihátíðarveður“ segir Þorsteinn. Hiti verður um 12 stig. Um kvöldið rignir.

Á Dalvík er spáð blíðviðri. „Mun betra veður verður fyrir norðan, bara hægur vindur og nokkuð hlýtt, 11-16 stig. Það er næturþoka á Norðurlandi en þegar henni léttir á morgun ætti að vera mjög fínt veður.“

Annars er strekkingur við suðurströnd Íslands og annað kvöld rignir. „Veðrið verður síst á Suðurlandi á morgun. Þar gæti tekið aðeins í tjöldin. Annars staðar er lygnt og hlýtt síðsumarveður,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert