Flugeldasýning á Jökulsárlóni annað kvöld

Flugeldasýning á Jökulsárlóni þykir mikið sjónarspil.
Flugeldasýning á Jökulsárlóni þykir mikið sjónarspil. mbl.is/Árni Helgason

Annað kvöld klukkan ellefu hefst árleg flugeldasýning á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Sýningin er haldin í 18. sinn en gestum hennar hefur fjölgað jafnt og þétt.

Undirbúningur fyrir sýninguna hefst fyrr um daginn þegar menn á gúmmíbáti fara um lónið og raða 150 friðarkertum á ísjaka. Áður en sýningin hefst  er kveikt á kertunum og flugeldum er skotið upp á nokkrum stöðum á lóninu.

Björgunarfélag Hornafjarðar hefur veg og vanda af sýningunni í samstarfi við Ríki Vatnajökuls. Í ár er Ice Lagoon aðalstyrktaraðili sýningarinnar.

Sýningin stendur yfir í um það bil 20 mínútur. Upplýstir ísjakarnir eru baðaðir í litum og birtu frá stórkostlegri flugeldasýningu í magnaðri umgjörð náttúrunnar sem skapar einstaka upplifun fyrir áhorfendur.

Aðgangseyrir sýningarinnar er 1.500 kr. á mann og hægt er að greiða við innganginn. Aðgangseyrir rennur óskiptur til Björgunarfélagsins. Sætaferðir verða bæði frá Höfn og Kirkjubæjarklaustri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert