Óska eftir fundi vegna knatthúss

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. Ljósmynd/Hafnarfjaðarbær

Bæjarfulltrúar minnihlutaflokka í Hafnarfirði hafa farið fram á að boðað verði til fundar í bæjarstjórn eigi síðar en 15. ágúst vegna ákvörðunar sem var tekin varðandi nýtt knatthús FH í bænum.

Hafnarfjarðarbær og Fimleikafélag Hafnarfjarðar gerðu með sér rammasamkomulag um að knatthús FH rísi í Kaplakrika á fyrri hluta næsta árs. Framkvæmdir eiga að hefjast á næstu vikum.

„Beiðnin kemur í framhaldi af ákvarðanatöku um breytt áform varðandi knatthús sem keyrð var í gegn með meirihlutavaldi á lokuðum fundi í miðju sumarleyfi bæjarstjórnar og bæjarráðs, þar sem einungis 3 af 11 bæjarfulltrúum samþykktu stefnubreytingu í málefnum er varða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum,“ segir í tilkynningu minnihlutans. 

Þar kemur fram að fulltrúar hafi fengið afar skamman fyrirvara vegna tillögunnar og að skort hafi verulega á gögn og upplýsingar varðandi forsendur hennar.

„Fulltrúar þeirra flokka sem sitja í minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar draga lögmæti ákvörðunarinnar í efa enda er umboð bæjarráðs til ákvarðanatöku í sumarleyfi bæjarstjórnar ekki hugsað til töku stefnumarkandi ákvarðana heldur eingöngu í þeim tilgangi að tryggja eðlilega afgreiðslu mála sem eru til meðferðar í stjórnkerfinu,“ segir einnig í tilkynningunni. 

„Einungis tveir af fjórum flokkum í minnihluta bæjarstjórnar eiga atkvæðisrétt í bæjarráði og hafa því ekki haft neina aðkomu að ákvarðanatökunni. Það er því eðlilegt að bæjarstjórn taki ákvörðunina til opinnar og málefnalegrar umfjöllunar þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn eiga fulltrúa og atkvæðisrétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert