„Frelsisstríðum lýkur aldrei“

„Við megum ekki gera ráð fyrir því að framfarir í réttindamálum hinsegin fólks séu sjálfsagðar. Með því að viðhalda og efla fræðslu, vera vakandi og vinna gegn fordómum, tryggjum við réttindi hinsegin fólks,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðu sinni á hátíðardagskrá Hinsegin daga í dag.

Katrín sagði að gleðigangan snúist um baráttu fyrir réttindum en líka um gleðina fyrir fjölbreytileikanum og þeim sigrum sem hafa þegar unnist í baráttunni.

Katrín Jakobsdóttir flutti ræðu á hátíðardagskrá Hinsegin daga.
Katrín Jakobsdóttir flutti ræðu á hátíðardagskrá Hinsegin daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt að halda baráttunni áfram

Í ræðu sinni rifjaði forsætisráðherrann upp áfanga í réttindabaráttu hinsegin fólks, fyrstu gleðigönguna og lagasetningar sem hafa verið til úrbóta fyrir hinsegin fólk. Hún sagði jafnframt að mikilvægt væri að láta ekki staðar numið heldur halda áfram að berjast fyrir réttindum allra í raun. 

„Frelsisstríðum lýkur aldrei. Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Við vitum að við verðum að tryggja mannréttindi trans og intersex fólks,“ sagði Katrín. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland eigi að vera í fremstu röð

Þá minntist hún á frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi í vetur um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði sem muni koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. „Þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt,“ sagði Katrín. 

Hún minntist á að í ýmsum ríkjum hefðu stjórnvöld afnumið réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir, víða hafi orðið bakslag sem þurfi að berjast gegn. 

„Við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum hinsegin fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er,“ sagði Katrín. 

Að lokum sagðist hún fagna því að tilheyra samfélagi sem hefur breyst mikið til hins betra á skömmum tíma, hugrekkinu sem enn þurfi samt stundum að sýna, margbreytileikanum og fræðslunni.  

„Ég fagna hamingjunni og ég fagna frelsinu. Til hamingju við öll með árangurinn og fulla ferð áfram,“ sagði Katrín.  

Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að þó svo að margt …
Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að þó svo að margt hefði áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks væri mikilvægt að láta ekki staðar numið. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is