Skorar á Guðna að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu

Það verður spennandi að sjá hvort að Guðni verði við …
Það verður spennandi að sjá hvort að Guðni verði við ósk Tinnu og taki þátt í Reykjavíkurmaraþoninu um næstu helgi. Ljósmynd/Íslandsstofa

„Hann má fara hvaða vegalengd sem er. Það er örugglega svolítið erfitt fyrir hann að finna tíma til að æfa fyrir heilt maraþon og ekki úr þessu. Þannig ég skora á hann að hlaupa bara eitthvað og til styrktar einhverju,“ segir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor um Guðna Th. Jóhannesson forseta. Tinna skorar á son sinn Pétur Bjarna auk Guðna að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu um næstu helgi.

Sjálf ætlar Tinna að hlaupa heilt maraþon en það hefur hún gert tvisvar áður, þó ekki í Reykjavíkurmaraþoninu. Þar hefur hún þó hlaupið bæði tíu kílómetra og hálfmaraþon þó nokkrum sinnum. „Þetta er mikil stemning. Það er fólk á leiðinni sem hvetur mann áfram og það er mikil gleði og gaman. Þetta er alltaf skemmtilegt.“

Tinna er prófessor í hagfræði og mikil útivistarmanneskja.
Tinna er prófessor í hagfræði og mikil útivistarmanneskja. Ljósmynd/Aðsend

Tinna hefur ákveðið að safna áheitum fyrir mannréttindasamtökin Amnesty International.

„Ég hef styrkt samtökin um nokkurt skeið og þykir þeirra starf mikilvægt. Það var nú frekar erfitt samt að velja, það eru svo mörg góð félög. En á endanum ákvað ég að hlaupa bara fyrir eitt og styrkja sjálf önnur sem komu til greina. Sem félagasamtök er Amnesty ofarlega á lista hjá mér og ég er náttúrulega félagi af því að ég hef trú á starfinu,“ segir hún.

Tinna segist þekkja til Guðna úr háskólasamfélaginu, en bæði hún og eiginmaður hennar eru prófessorar við Háskóla íslands líkt og Guðni, þó hann sé í leyfi frá störfum á meðan hann sinnir forsetaembættinu.

Maraþonið um næstu helgi verður það þriðja sem Tinna hleypur.
Maraþonið um næstu helgi verður það þriðja sem Tinna hleypur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla honum nú ekki, og ekki heldur syni mínum, að hlaupa maraþon. En ég skora á þá að taka þátt með einhverjum hætti. Þetta snýst um það. Að vera með og hafa gaman og hugsanlega láta eitthvað gott af sér leiða í leiðinni,“ segir Tinna og bætir við að hlaupið ætti ekki að vefjast fyrir Guðna.

„Guðni hefur nú hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu áður. Hann er fínn íþróttamaður og hann er hraustur og fínn hlaupari. Hann hefur gert það mjög sómasamlega hingað til. Það ætti ekkert að vefjast fyrir honum að hlaupa sæmilegt hlaup. Hann hefur alveg íþróttamennskuna í það,“ segir Tinna og hlær.

Hægt er að heita á Tinnu og styrkja þannig Amnesty International hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert