Ráðgátan um olíulekann enn óleyst

Olíuflekkurinn sást skammt frá Hrísey.
Olíuflekkurinn sást skammt frá Hrísey. mbl.is/Árni Sæberg

„Málið er enn þá hálfgerð ráðgata eins og staðan er núna,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is um rannsókn á því hvað olli stórum olíuflekk sem tilkynnt var um skammt frá Hrísey fyrir um viku.

Sýni sem var tekið úr hvalaskoðunarbát reyndist ónothæft og því ekki hægt að nota það til að bera saman við olíu úr skipum sem voru til rannsóknar.

Mynd tekin úr hvalaskoðunarbát sýnir olíubrák í sjónum. Sýnið sem …
Mynd tekin úr hvalaskoðunarbát sýnir olíubrák í sjónum. Sýnið sem var tekið reyndist þó ekki nothæft. Ljósmynd/Aðsend

Olíuflekkurinn sem sást síðastliðinn sunnudag var áætlaður um 1,6 km á lengd og 300-400 metrar á breidd. Rannsókn á uppruna hans hefur staðið yfir í viku núna en engar skýringar hafa fundist. Við skoðun fannst olíuflekkurinn ekki og því gat Umhverfisstofnun ekki tekið sýni úr honum. Hvalaskoðunarbátur sem var á svæðinu tók sýni en í því reyndist ekki vera mælanleg olía og sýnið því ónothæft.

Þrjú skip voru upp­runa­lega til skoðunar sem mögulegir mengunarvaldar en fljótlega var úti­lokað að lek­inn hefði komið frá tveim­ur þeirra. Lögregla ræddi við skipstjóra og vélstjóra þriðja skipsins sem neituðu sök. Sýni var tekið þaðan til að bera saman við það sýni sem tekið var úr sjónum en það reyndist ónothæft eins og áður segir.

Einnig var til skoðunar hvort olíulekinn gæti hafa komið úr skipsflaki á hafsbotni en eftir rannsókn var það útilokað. Málið er því í biðstöðu hjá Umhverfisstofnun eins og er.

„Málið er í biðstöðu eins og staðan er núna. Við munum ekkert aðhafast frekar að svo komnu máli nema nýjar upplýsingar eða gögn berist,“ segir Ólafur.

Það er möguleiki á að olíulekinn hafi komið frá smábáti en ekki skipi en þar sem svæðið í Eyjafirði er stórt og mikil umferð báta þar um auk þess sem ekkert nothæft sýni er til staðar er erfitt að kanna þann möguleika til hlítar.

„Við ætlum ekki að loka málinu alveg fyrr en við sjáum að öll sund eru lokuð. Við erum enn þá með þetta mál til skoðunar,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert