Líklega komnir aftur inn fjörðinn

Björgunarsveitarmenn ráku hvalavöðuna úr firðinum í gær en svo virðist …
Björgunarsveitarmenn ráku hvalavöðuna úr firðinum í gær en svo virðist sem hún sé snúin aftur. mbl.is/Alfons Finnsson

Grindhvalavaðan sem björgunarsveitarmenn ráku úr Kolgrafafirði í gær er líklega komin aftur inn fjörðinn. Þetta segir Einar Strand, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, í samtali við mbl.is. Hann segir björgunarsveitum hafa borist tilkynning um að hvalavaðan væri snúin aftur.

Kolgrafafjörður rataði reglulega í fjölmiðla í árslok 2012 og ársbyrjun 2013 eftir að fjörðurinn fylltist af síld, sem síðar drapst í verulegu magni. „Ég er búinn að vera hér í tuttugu ár en ég man ekki eftir að hafa heyrt af grindhvölum í Kolgrafafirði,“ segir Einar spurður hvort grindhvalastrand hafi áður verið til vandræða í firðinum.

Einar kveðst ekki viss um hvort björgunarsveitir aðhafist nokkuð vegna grindhvalanna séu þeir komnir aftur inn fjörðinn. „Það er spurning um að láta þetta í friði,“ segir Einar. „Menn voru að prófa hvort þetta myndi duga, í Ólafsvík hafa þeir stundum rekið grindhvalina frá landi þegar þeir eru að ganga þar.“

Að sögn Einars var það e.t.v. helst á landi þar sem hætta skapaðist í gær vegna hvalavöðunnar. Margt ferðafólk stöðvaði bíla sína á brúnni eða var annars hugar við aksturinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina