Á vaktinni á Menningarnótt í 21. skipti

Ágúst segir viðbragðsaðila vera komna í góða æfingu.
Ágúst segir viðbragðsaðila vera komna í góða æfingu. mbl.is/Árni Sæberg

Viðbúnaður lögreglu og öryggisgæsla á Menningarnótt verður með svipuðum hætti og í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom í fréttum á síðasta ári að unnið væri með aðgerðaplan sem tæki meðal annars mið af atburðum sem nýlega höfðu átt sér stað í Barcelona, þar sem bíl var ekið inn í mannfjölda á Römblunni. Unnið verður eftir sama aðgerðaplani í ár.

„Þetta er allt með sama hætti og var í fyrra,“ segir Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann vill ekki þó meina að það hafi verið meiri viðbúnaður í fyrra en árin á undan, heldur hafi umfjöllun um viðbúnaðinn verið meiri en áður. „Við erum með sama viðbúnað ár eftir ár.“

Götum verður meðal annars lokað með bílum til að tryggja að viðbragðsaðilar komist inn á hátíðarsvæðið ef þarf. Til að stytta viðbragðstímann inn í miðbæinn, útskýrir Ágúst. „Við höfum gert það á stærri viðburðum og það hefur gengið vel. Þetta er 23. Menningarnóttin svo við erum komin í ansi góða æfingu með það sem þarf að gera, með góðum viðbragðsaðilum.“

Ágúst vill ekkert gefa upp um hve margir lögregluþjónar verða á vakt á Menningarnótt, en segir verða nóg af þeim.

Þá vill hann lítið gefa upp um það hvernig lögregla verður útbúin eða hvort vopnaðir lögreglumenn verði í miðbænum. „Það er bara okkar mál. Við höfum haldið uppi öryggi og reglum hérna og tekist á við þau verkefni sem koma upp.“

Fjöldi lögreglumanna stendur vaktina á Menningarnótt.
Fjöldi lögreglumanna stendur vaktina á Menningarnótt. mbl.is/Eggert

Hann viðurkennir þó að það sé aðeins annar veruleiki nú en fyrir 23 árum þegar Menningarnótt var haldin í fyrsta skipti. Lögreglan á Íslandi hafi aðlagað sig að því sem hefur verið að gerast í umheiminum síðustu ár. Ágúst vill þó ekki meina að viðbúnaðurinn beri merki þessi, heldur beri hann merki um gleði og ánægju. „Við höfum lært helling á þessum árum og það eru forréttindi að fá að vinna með fólkinu sem kemur að þessu,“ segir Ágúst en hann verður sjálfur á vaktinni á laugardaginn.

„Þetta er 21. Menningarnóttin mín. Þetta er bara einn liður í því sem þarf að gera. Það er oft sama fólkið.“ Aðspurður segir hann þetta þó alltaf jafnskemmtilegt og yfirleitt gangi allt vel. „Ef við höfum veðrið með okkur, þá erum við í toppmálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert