Hundrað nýir Landvættir í ár

Frá Jökulsárhlaupi.
Frá Jökulsárhlaupi. Ljósmynd/Þór Gíslason

„Það voru sjötíu manns sem bættust við eftir Jökulsárhlaupið. Aukningin var sérstaklega mikil í ár og svo var hún drjúg í fyrra líka,“ segir formaður Landvættafélagsins, Ingvar Þóroddsson. Til þess að verða Landvættur þarf viðkomandi að ljúka ólíkum þrekraunum í öllum fjórum landshlutum.

„Það bætast við svona rétt um hundrað meðlimir í Landvættina á þessu ári og um 75 í fyrra. Það stefnir allt í að í félaginu verði núna um 330 einstaklingar sem mega kalla sig Landvætti,“ segir Ingvar.

Tilvonandi landvættir þurfa á tólf mánuðum, ekki endilega miðað við almanaksárið, að ljúka eftirfarandi:

Vesturhluti: Fossavatnsgangan, 50 kílómetra skíðaganga á Ísafirði.

Norðurhluti: Jökulsárhlaupið, 32,7 kílómetra hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis.

Austurhluti: Urriðavatnssundið, 2,5 kílómetra sund í Urriðavatni nálægt Fellabæ

Suðurhluti: Blue Lagoon Challenge, 60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði.

Nái viðkomandi að ljúka öllum áskorunum fjórum getur viðkomandi gert Landvættum viðvart og orðið sjálfur félagi.

Urriðavatnssund.
Urriðavatnssund. Mynd/Sigurður Aðalsteinsson

Ingvar segir hugmyndina að Landvættum vera komna frá Svíþjóð.

„Í Svíþjóð er til fyrirbrigði sem er kallað „en svensk klassiker“. Þar eru þessar fjórar greinar í gangi og fyrir um sex árum síðan kom upp sú hugmynd að það væri nú gaman að setja eitthvað svipað í gang á Íslandi.

„Á einhvern hátt þá leiddumst við inn á það að það væri gaman að hafa einn atburð í hverjum landshluta. Þessir viðburðir voru allir til og við gerum svo samning við stjórnir þessara viðburða um að þeir megi teljast til Landvætta. Hugmyndin okkar með þessu var að fá þá sem væru í góðu formi að prófa fleiri greinar en þeir voru vanir.“

Jökulsárhlaupið var síðastur af viðburðunum fjórum í ár og þeir sem hlupu þar og hafa ekki reynt við hina viðburðina þrjá geta því lokið þeim á næsta ári í því skyni að verða Landvættir, svo lengi sem það er innan tólf mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert