Segja frumvarp banna strætó á Kjalarnes

Strætó er meðal fjölmargra aðila sem gera athugasemdir við frumvarp …
Strætó er meðal fjölmargra aðila sem gera athugasemdir við frumvarp til nýrra umferðarlaga. mbl.is

Fjölmargar umsagnir hafa borist á samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarps til nýrra umferðarlaga. Meðal annars er lagt til að gangandi vegfarendur haldi sig til hægri á göngustígum og óttast Strætó að ef frumvarpið verði samþykkt óbreytt verði ekki hægt að fara með hefðbundnum strætisvögnum á Kjalarnes.

Þá eru einnig ýmsar umsagnir frá einstaklingum sem varða hin ýmsu mál. Einn nefnir lækkun hámarksmagns vínanda í blóði úr 0,5 prómill í 0,2 prómill. Annar vill herða ákvæði er varðar notkun öryggisbúnaðar barna í ökutækjum. Í heild hefur 22 umsögnum verið skilað inn um frumvarpið.

Enginn strætó til Kjalarness?

Strætó hefur skilað umsögn, en í henni segir fyrirtækið að það hafi áhyggjur af því að 75. grein geri ráð fyrir að óheimilt verði að aka almenningsvögnum þar sem heimilt er að aka á 80 km hraða eða meira. Með þessu verður ekki hægt að tengja Kjalarnes við almenningssamgöngukerfið með hefðbundnu gulu vögnum fyrirtækisins, að því er fram kemur í umsögninni.

Fyrirtækið leggur til að breytingar verði gerðar á lögunum svo að heimilt verði í lögum að hafa reiðhjólafestingar framan á strætisvögnum fyrirtækisins. Strætó segir þetta leið til þess að tengja saman umhverfisvæna samgöngumáta, en nú er takmarkað pláss í vögnum Strætó til þess að flytja reiðhjól.

Landssamband hjólreiðarmanna leggur fram talsverðan fjölda ábendinga í sinni umsögn um frumvarpið. Meðal þeirra er tillaga sambandsins um að gangandi vegfarendum á göngustígum verði gert að halda sig til hægri á göngustígum. Samkvæmt frumvarpinu myndi þó ekki vera viðurlög við brotum á þessu ákvæði.

Sjálfkeyrandi ökutæki við Hörpu í vor.
Sjálfkeyrandi ökutæki við Hörpu í vor. Valgarður Gíslason

Ekkert um sjálfkeyrandi bíla

Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands er meðal annars lýst áhyggjum yfir því að ekki er tekið tillit til tækniframfara sem hafa þegar orðið á sviði ökuþjarka eða sjálfkeyrandi bíla, og segir að hvergi í umræddu frumvarpi sé gert ráð fyrir slíkum farartækjum.

„Þetta veldur Viðskiptaráði nokkrum áhyggjum þar sem samanburðarlönd Íslands eru í óða önn að búa sig undir innreið sjálfkeyrandi bíla meðan hornsteinn íslenskrar umferðarlöggjafar til næstu áratuga er hljóður um þessi mál,“ segir í umsögninni.

Þá vísar Viðskiptaráð til þess að gildandi löggjöf tók gildi 1988 og leysti hún af hólmi löggjöf frá 1968. Endurskoðun gildandi laga hófst 2007 og í ljósi þessa megi gera ráð fyrir því að ný lög muni gilda í langan tíma og af þeim sökum telur ráðið mikilvægt að horft verði til breytinga sem verða í framtíðinni.

Löggjöf um ökuréttindi hert án skýringa

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu hafa sent frá sér sameiginlega umsögn og er þar sett út á ýmis ákvæði frumvarpsins. Telja samtökin meðal annars að í frumvarpinu séu ýmis ný skilyrði fyrir að öðlast ökuréttindi og að verið sé að þrengja löggjöfina án þess að færa fyrir því rök.

Þá segja samtökin að „við lögfestingu nýrra reglna og innleiðingu Evrópulöggjafar verði að velja þá leið sem er minnst íþyngjandi sem völ er á nema sterk rök standi til annars. Engar athugasemdir eru í frumvarpsdrögunum með röksemdafærslu fyrir því hvers vegna þurfa að herða skilyrðin.“

Frumvarpið miðar að því að stytta gildistíma ökuskírteina og telja samtökin að skortur sé á rökstuðningi fyrir þessu. Einnig er bent á að óljóst er hvaða áhrif þetta nýja ákvæði hafi á þau skírteini sem þegar hafa verið gefin út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert