Stefna á viðbyggingu með 20 golfhermum

Frá golfvelli GKG.
Frá golfvelli GKG.

Bæjarráð Garðabæjar tekur jákvætt í að veita Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) heimild til að hefja vinnu við viðbyggingu á golfsvæðinu við Vífilsstaði. Áætlað er að byggja viðbyggingu við núverandi íþróttamiðstöð GKG með 20 Trackman-golfhermum, en áætluð stærð viðbyggingar er um 600-700 fermetrar. 

Á móti mun Golfklúbburinn missa útiæfingasvæði en það fer undir nýtt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar þar sem erindi frá GKG um uppbyggingu á golfsvæðinu við Vífilsstaði er kynnt.

Í bréfinu sem Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG, sendi bæjarráði kemur fram að þrátt fyrir missi á útiskotsvæði, sem nýtist sérstaklega vel yfir sumarið, er það mat GKG að viðbygging bjóði upp á nýja möguleika fyrir starf félagsins sem vega það upp.

Áætlaður byggingartími á viðbyggingu er innan við eitt og hálft ár. Mögulega þarf að gera bráðabirgðaæfingasvæði fyrir sumarið 2019 þar sem umsókn um byggingarleyfi þarf að fara í formlegt ferli innan stjórnsýslu Garðabæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert