„Sumarið var okkur erfitt“

Frá framkvæmdunum á Vesturlandsvegi.
Frá framkvæmdunum á Vesturlandsvegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er umferðastýring þarna. Þeir safna upp og hleypa svo í gegn. Öðruvísi getum við ekki gert þetta. Ég held að fólk sé með ágætisbiðlund og það hefur sýnt okkur skilning,“ segir Þórður Njálsson, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni. Miklar umferðartafir hafa verið á Vesturlandsvegi við Kjalarnes síðan í gærkvöldi.

Umferðartafir voru miklar við Kjalarnes í gærkvöldi.
Umferðartafir voru miklar við Kjalarnes í gærkvöldi. Ljósmynd/ Örn Pálsson

„Við byrjum klukkan sex í dag, förum aðeins inn í kvöldið og verðum svo alla nóttina. Það er verið að endurvinna og malbika um fjóra kílómetra. Við kláruðum að malbika til norðurs í gær og tökum suðurhelminginn í kvöld. Vonandi ná þeir að klára út af veðri,“ segir Þórður.

Framkvæmdir hófust klukkan sex í gærkvöldi og stóðu til klukkan fimm í morgun. Samkvæmt vegfarendum var bílaröð frá framkvæmdasvæðinu að Kollafirði tveggja til þriggja kílómetra löng. 

„Auðvitað myndast raðir, við þurfum bara smá biðlund til að klára þetta. Sumarið var okkur erfitt. Það var mikið um rigningu og annað. Öllum framkvæmdum átti að vera lokið fyrsta ágúst,“ segir Þórður.

Auk framkvæmdanna á Vesturlandsvegi er Ölfusárbrú við Selfoss lokuð út vikuna og Þingvallavegur er sömuleiðis lokaður fram í október.

„Svo eru stórframkvæmdir sem byrja á morgun á Hellisheiði frá göngunum. Það verður mikið um lokanir þar og þetta er þriggja sólahringa verkefni. Ef við fáum þessa viku þurra þá erum við búnir,“ segir Þórður

Vegagerðin biðlar til vegfarenda að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu nálægt akstursbrautum.

Frá framkvæmdunum á Vesturlandsvegi.
Frá framkvæmdunum á Vesturlandsvegi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert