Vildi hlaupa maraþon eftir hjartaáfall

Fjölskylda Sigmundar hvetur hann til dáða í Þýskalandi.
Fjölskylda Sigmundar hvetur hann til dáða í Þýskalandi. Ljósmynd/Aðsend

„Með því að hlaupa til styrktar Hjartaheillum vil ég vekja athygli á því að það er ýmislegt hægt þó að menn fái hjartaáfall. Það er hægt að lifa lífinu áfram eins og hver annar,“ segir Sigmundur Stefánsson, 65 ára maraþonhlaupari og járnkarl. Sigmundur hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu um næstu helgi til styrktar Hjartaheillum, en sjálfur fékk hann hjartaáfall fyrir tæpum tuttugu árum.

„Ég lenti í því fyrir hartnær tuttugu árum að fá hjartaáfall. Frá þeim tímamótum hef ég verið að hlaupa. Mér var nú fyrst ráðlagt að það væri ekki hollt fyrir mig. Síðan þjálfaði ég mig í rólegheitum upp í það að hlaupa maraþon,“ segir Sigmundur.

Fyrsti járnkarlinn í Frankfurt, Þýskalandi.
Fyrsti járnkarlinn í Frankfurt, Þýskalandi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var einmitt að æfa fyrir fyrsta maraþonið þegar ég fékk hjartaáfallið 48 ára gamall. Þá einsetti ég mér það að ef ég næði sæmilegri heilsu skyldi ég hlaupa maraþon. Og gerði það svo tveimur árum síðar.“

Síðan þá hefur Sigmundur farið járnkarlinn þrisvar sinnum, hlaupið tuttugu og sex maraþon til viðbótar og á fjórða tug hálfmaraþon. „Ég held að þetta hafi bara tekist mjög vel,“ segir hann.

Áhugi Sigmundar á járnkarlinum kviknaði þegar hann tók þátt í maraþoni í Boston í Bandaríkjunum og hann varð var við kynningu á járnkarlinum.

„Þetta hafði nú blundað í mér lengi. Sem ungur maður var ég mikill sundmaður, keppnismaður í sundi. En þarna fór ég að hugsa með mér að þetta væri eitthvað sem ég gæti. Hljóp maraþon og var þokkalegur í sundi þótt ég þyrfti náttúrulega að þjálfa mig upp og svo kunnum við nú öll að hjóla. Þetta var grunnurinn sem ég lagði af stað með.“

Mikilvægt að fara róleg af stað 

Sigmundur segist alltaf hafa passað sig að fara rólega af stað í þau verkefni sem hann leggur fyrir sig.

„Það sem ég hef alltaf passað eftir að ég fæ þetta hjartaáfall er að fara aldrei í eitthvert rosalegt álag og sprengja mig. Ég hef alltaf verið öryggismegin.“

Það hefur þó ekki staðið í vegi fyrir Sigmundi og hefur hann náð að halda fínum hraða í hlaupum og öðrum þrekraunum.

„Í járnkarlinum komst ég í tvígang á verðlaunapall í mínum flokki. Bæði í Kalmar í Svíþjóð og í Kaupmannahöfn. Miðað við aldursflokk er ég svona með þeim hraðari á landinu og er meira að segja að reyna við Íslandsmetið í flokknum núna. Fyrst og fremst er þetta spurning um æfinguna og hugarfarið. Við getum þetta öll ef við ætlum okkur það.“

Mataræðið lykilþáttur 

Þá segir Sigmundur mataræði vera mikilvægan þátt í velgengni sinni.

Sigmundur hleypur maraþon á Kínamúrnum.
Sigmundur hleypur maraþon á Kínamúrnum. Ljósmynd/Aðsend

„Það er lykillinn að þessu. Upphaflega þegar ég byrja að hlaupa, fer ég af stað því ég greindist með B-týpu af sykursýki. Þá var ég yngri maður og fer að vinna á sykrinum sem maður gerir með stöðugri hreyfingu. Þetta hjálpaði geysilega mikið og heldur blóðsykrinum hjá mér í mjög góðu jafnvægi. Þetta er svona eins og gerist, þetta verður bara fíkn. Þetta er svo skemmtilegt.“

Sigmundur leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að fara rólega af stað og að láta veikindi ekki aftra sér svo framarlega sem maður ræður við það sem maður tekur sér fyrir hendur.

„Með þessu vil ég vekja athygli á því að við getum þetta öll þó að við lendum í því að fá hjartaáfall. Spurningin er bara að fara nógu hægt af stað og viljinn til að sigrast á þessu.

Þetta er ættarsaga hjá mér, að fá hjartaáfall. Ég var búinn að sjá þá sem stóðu mér nærri þar sem þeir voru eiginlega bara sjúklingar. Ég gat ekki hugsað mér það innan við fimmtugt að verða svoleiðis þannig ég ákvað bara að hlaupa þó að læknar hefðu ráðlagt mér að gera það ekki. Það eru hartnær tuttugu ár síðan þetta gerðist og það hefur ekki þurft að vera neitt inngrip síðan. Vonandi sleppur það og verður í góðum gír.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert