„Allir jafnstressaðir yfir þessu“

Málarar á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið getað unnið úti í sumar.
Málarar á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið getað unnið úti í sumar. Ljósmynd/Aðsend

„Maður hefur lent í slæmum sumrum en engu eins og þessu,“ segir Ívar Þór Hilmarsson, framkvæmdastjóri Stjörnumálunar, sem hefur starfað í málningarbransanum í nítján ár.  

Sumarið hefur verið afar vætusamt á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda voru aðeins fimm þurrir dagar í Reykjavík í júlí. Bæði maí- og júnímánuður voru einnig vel yfir meðallagi hvað vætu varðar.

Allt sem tengist útivinnu er á eftir áætlun, að sögn Ívars Þórs, og óvíst er hvort náist að klára allt. Svo gæti farið að verkefnum verði frestað til næsta árs.

„Það eru allir jafnstressaðir yfir þessu, alla vega þeir sem eru í þessum stærri verkefnum.“

Fyrirtækið hætti að bjóða í verkefni í byrjun júlí vegna vætutíðarinnar til að geta klárað þau verkefni sem höfðu tafist en slíkt er mjög óvenjulegt þar á bæ.

„Við vonum að haustið verði gott, þannig að við getum verið lengur áfram. Við hljótum að eiga það inni,“ segir Ívar Þór, orðinn langþreyttur á ástandinu. 

Óvæntar skúrir eyðileggja málningarvinnu

Aðspurður segir hann það bæði dýrt og mikið vesen þegar staðan er svona. Til dæmis þarf að senda starfsmenn fram og til baka á milli staða, allt eftir því hvernig veðrið er. „En sem betur fer erum við með nóg inni, þannig að þetta hefur sloppið,“ segir hann og á við inniverkefni.

Um 40 til 50 manns starfa á vegum fyrirtækisins. Ívar Þór kveðst ekki hafa þurft að segja fólki upp en færri hafa engu að síður verið ráðnir í sumarvinnu en venjan er.

Sem dæmi um hve rigningin hefur gert fyrirtækinu lífið leitt er að tíu mínútna skúrir, sem ekki hafði verið spáð, hafa eyðilagt málningarvinnu og hefur hálfur dagurinn farið í að þrífa málninguna sem lak, ásamt gangstéttum. „Það er ekkert að marka veðurspána, það er líka slæmt,“ bætir Ívar Þór við.

Spurður hvort skilningur sé hjá verkkaupum yfir ástandinu segir hann svo vera á flestum stöðum en ekki öllum.

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Verkefnin klúðrast bara“

Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins, segir að menn séu almennt séð mjög langt á eftir með verkefnin sín og eflaust verði töluverðum fjölda frestað til næsta árs.

Hann segir veðrið í sumar vera í minningunni eitt það versta með tilliti til húsamálunar síðan hann lauk námi árið 1980, eða fyrir tæpum 40 árum.

„Þetta eru svo fáir dagar sem við fáum alveg góða. Við erum alltaf að fá rigningu, kannski seinnipartinn, eða blautt á morgnana þegar við förum af stað. Það eru svo fáir dagar sem við fáum flott veður.“

Hann nefnir sem dæmi að menn hafi verið búnir með ákveðnar hliðar á húsum en ekki getað byrjað á hinum. „Verkefnin klúðrast bara, það verður léleg afkoma af verkefnunum. Svo eru menn með palla og vinnulyftur sem standa kannski dag eftir dag og þarf að borga leigu fyrir.“

Einnig segir hann að gluggar hafi lítið sem ekkert náð að þorna í sumar. „Þetta er mun flóknari staða en við höfum verið með áður.“

Fólk sýni biðlund

Már biðlar til kúnna að sýna biðlund „þannig að við séum ekki teknir af lífi“. Núna er sú staða uppi að þeir eru orðnir óþreyjufullir enda lítur sums staðar út fyrir að verkefni verði ekki framkvæmd í haust. „Fólk er að sjá að hlutirnir eru ekki að gerast og það veldur smá núningi, það er bara þannig. Það er vonandi að fólk sýni því skilning hvernig þetta er.“

Minna hefur verið um ráðningar á sumarstarfsmönnum en það sem hefur bjargað stöðunni er góð verkefnastaða í innivinnu. Að sögn Más hafa fyrirtæki hjálpað hvert öðru, þ.e. þau sem hafa haft næga innivinnu hafa fengið lánaða starfsmenn annarra fyrirtækja þar sem minna hefur verið um slíkt og menn verið hálfatvinnulausir. Þau fyrirtæki hafa svo hjálpað á móti þeim sem hafa tekið við þeirra starfsmönnum.

„Vonandi fáum við gott haust svo að við getum unnið meira í þessum verkefnum. Maður verður að vera bjartsýnn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert