Alvarlegur utanvegaakstur á Fjallabaki

Bifhjól í utanvegaakstri unnu miklar skemmdir á gróðri á stóru svæði á Fjallabaki, við veginn að Hófsvaði og Ljótapolli, í gærmorgun. Landvörður á svæðinu segir þetta alvarlegast tilfellið í sumar, en engar vísbendingar hafa borist um hverjir gætu hafa verið þarna að verki.

Förin liggja meðal annars frá vegi 208, eftir línuveginum að Ljótapolli og niður að Tungnaá. Svipuð för eru einnig á Dyngjuleið.

Nína Aradóttir landvörður á Fjallabaki birti myndir af skemmdunum í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar í gær í þeirri von um að fólk myndi hafa augun opin fyrir bifhjólahópum á svæðinu. Í samtali við mbl.is segir hún greinilegt að um létt bifhjól hafi verið að ræða, líklega um fjögur til tólf talsins.

Förin sjást greinilega.
Förin sjást greinilega. Ljósmynd/Nína Aradóttir

Hún segir fólkið hafa verið að verki á milli klukkan ellefu og tólf í gærmorgun, því hún var sjálf á svæðinu fyrr um morguninn. Þá ræddi hún við rútubílsstjóra sem keyrði um svæðið um ellefuleytið og þá voru förin ekki komin. Um tólfleytið þegar hún snéri aftur voru hjólförin hins vegar mjög greinileg. Það sé greinilegt að stór hópur bifhjólamanna hafi farið út af veginum og keyrt um svæðið og svo einhverjir haldið áfram í minni hópum inn á gróðursvæði.

„Ég sá fjögur för sem fóru lengra og meðal annars yfir viðkvæmt mosasvæði þar sem voru miklar skemmdir á gróðri. Ég náði ekki að fylgja öllum förunum eftir þannig ég veit ekki alveg hve miklar skemmdirnar eru. Þetta var það mikið.“

Ljósmynd/Nína Aradóttir


Nína segir í raun engar ábendingar hafa borist um hverjir gætu hafa verið þarna að verki. Hún ræddi við hóp bifhjólamanna sem keyrði um svæðið á svipuðum tíma, en sá hópur gat sýnt fram á það með GPS tækjum að hann hafði farið aðra leið. „Ég átti mjög gott samtal við þau um málið,“ segir Nína sem telur því útilokað að þeir einstaklingar hafi verið að verki.

Hún segir förin sem mynduðust við utanvegaaksturinn nánast vera eins og nýjan slóða og geti haft þau áhrif á aðrir fari að fylgja honum. Alvarlegasti þátturinn sé þó gróðurskemmdirnar. „Svona skemmdir geta valdið jarðvegsrofi sem er mjög slæmt. Það var farið yfir viðkvæman mosa og maður sér strax að hann er farinn að deyja í kring.“

Nína tilkynnti lögreglu um málið ef ske kynni að einhverjar ábendingar bærust og svo hægt væri að fylgjast með málinu. „Síðan hafði ég samband við landverði í kring þannig að aðrir gætu haft augun opin. Það var líka ástæðan fyrir því að ég birti þetta í Baklandinu, til að fólk gæti haft augun opin fyrir hópum bifhjóla.“

Ljósmynd/Nína Aradóttir

Nína segir það reglulega koma fyrir að fólk valdi skemmdum með utanvegaakstri á svæðinu, en þetta sé mjög alvarlegt tilfelli. „Þetta er alvarlegasta tilfellið á okkar svæði í sumar. Þetta kemur af og til fyrir en mestmegnis eru þetta minni brot sem við sjáum. Fólk er að fara út af veginum til að stoppa og taka mynd eða eitthvað slíkt og áttar sig oft ekki á að það er að keyra utanvega.“

Hún segir þó almennt hafa dregið úr utanvegaakstri og telur góða fræðslu vera að skila sér. „Við höfum aukið fræðslu og erum að tækla vandamálið áður en það kemur upp með því að fræða fólk. Það var meðal annars það sem ég var að gera þarna í gærmorgun. Ég var í vegalandvörslu, talaði við alla sem komu inn á svæði, kynnti það fyrir þeim og kannaði hvert fólk var að fara. Svo enda ég alltaf á því að tala um utanvegaakstur og fræða fólk um þau mál. Við getum því sagt að landavarsla á landinu er að skila sér í fræðslu til ferðamanna og þá í minni utanvegaakstri.“

Ljósmynd/Nína Aradóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina