Ásthildur sækist eftir formennsku

Ásthildur Lóa Þórsdóttir sækist eftir formennsku í Neytendasamtökunum.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir sækist eftir formennsku í Neytendasamtökunum. Ljósmynd/Aðsend

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti formanns Neytendasamtakanna.

Í tilkynningu frá Ásthildi segir að þörfin á sterkum samtökum neytenda hafi sjaldan eða aldrei verið brýnni en núna. „Allur almenningur hefur með einum eða öðrum hætti fundið fyrir aukinni misskiptingu í þjóðfélaginu á eigin skinni. Við höfum horft á fé flytjast á fárra hendur og fundið fyrir vanmætti okkar gagnvart hækkunum á eldsneyti, tryggingum, vöxtum, verðbótum, leigu, þjónustugjöldum, lyfjakostnaði eða komugjöldum á spítala, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í tilkynningu frá Ásthildi.

Hún segir að þörf sé á öflugum Neytendasamtökum sem eru óhrædd við að „taka slagi“ til að verja hagsmuni almennings. „Oft var þörf en nú er nauðsyn, þess vegna býð ég mig fram,“ segir Ásthildur.

Nýr formaður verður kjörinn á þingi samtakanna 27. október. Ásamt Ásthildi hafa Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðingur, Guðmundur Hörður Guðmundsson, fyrrverandi formaður Landverndar, og Jakob S. Jónsson leiðsögumaður og leikstjóri, gefið kost á sér í embætti formanns samtakanna.

mbl.is