Fór húsavillt í morgunsárið

mbl.is/Júlíus

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á sjöunda tímanum í morgun um að verið væri að banka á glugga íbúðar í hverfi 105 en sá sem leitaði til lögreglunnar sagðist ekki kannast við kauða.

Lögreglan fór á vettvang og kom í ljós að maðurinn hafði farið húsavillt og fékk að halda sína leið enda ekki frekari kröfur á hendur honum.

Um svipað leyti var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns í annarlegu ástandi sem hafði hreiðrað um sig í ræstingarherbergi á hóteli í miðborginni en hann var ekki gestur á hótelinu. Manninum var vísað út og  ekki frekari kröfur gerðar á hendur honum.

Lögreglan handtók konu um fimm í nótt í Breiðholtinu vegna gruns um að hún væri undir áhrifum fíkniefna við stýri. Jafnframt er hún ekki með ökuréttindi. Var hún frjáls ferða sinna að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku.

Á níunda tímanum var karl handtekinn á svipuðum slóðum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann var ökuréttindalaus en hann hafði verið sviptur þeim fyrir nokkru. Var hann frjáls ferða sinna eftir blóðsýna- og skýrslutöku.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Breiðholtinu á tíunda tímanum í nótt en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort viðkomandi þjófur hafi verið handtekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert