Kynnir hugmyndir um þjóðgarðastofnun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Á næstu vikum mun umhverfis- og auðlindaráðherra funda víða um land til að kynna drög að frumvarpi um nýja þjóðgarðastofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar. Í dag skiptast þessi verk á þrjár stofnanir, en með frumvarpinu er ætlunin að leggja niður tvær af stofnununum.

Í dag fer Vatnajökulsþjóðgarður með málefni samnefnds þjóðgarðar, þjóðgarðurinn á Þingvöllum fer með málefni Þingvallarþjóðgarðs og Umhverfisstofnun fer með málefni þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem og friðlýstra svæða. Verða fyrrnefndu tvær stofnanirnar lagðar niður samkvæmt frumvarpinu.

Drögin að frumvarpinu voru sett inn á samráðsgátt stjórnvalda í lok síðasta mánaðar og er hægt að gera athugasemdir til og með fimmta september.

Fram kemur í greinargerð með drögunum að helstu markmið með stofnuninni séu að efla náttúruverndarsvæði með einföldun stjórnkerfis, aukinni skilvirkni og samnýtingu þekkingar. Með yfirsýn yfir málefni friðlýstra svæða á einum stað skapist breiður vettvangur til heildstæðrar stefnumótunar til lengri tíma. Þá leiðir aukin samlegð til þess að fjármunir eru nýttir með sem hagkvæmustum hætti. Loks fengist með stofnuninni sameiginleg ásýnd sem býður upp á samræmda kynningu náttúruverndarsvæða.

Þá er tekið fram að þó notast sé við nafnið Þjóðgarðsstofnun, þá sé einnig óskað eftir tillögum um nafn á nýju stofnunina.

Fundir ráðherra verða á sjö stöðum á landinu, en sá fyrsti fer fram klukkan 15:30 í félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert