Láta gott af sér leiða eftir Fiskidaginn

Fiskidagurinn mikli er stærsti viðburður ársins hjá Dalvíkingum ár hvert.
Fiskidagurinn mikli er stærsti viðburður ársins hjá Dalvíkingum ár hvert. Ljósmynd/Bjarni Eiríksson

„Við höfum gert þetta núna í nokkur ár, að færa þeim allt það sem stendur út af í fiski og brauði eftir helgina. Þetta er mismikið en núna var þetta á fjórum brettum. Þetta hefur komið sér afar vel fyrir þau,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins, en matvæli sem urðu afgangs eftir Fiskidaginn síðastliðna helgi verða gefin Samhjálp. 

„Við látum gott af okkur leiða. Fyrir þá sem komust ekki á Fiskidaginn þá fá þeir þarna smá þef og líka svo að ekkert fari til spillis,“ segir Júlíus en Samskip flytur matinn frítt til Reykjavíkur. 

Hann segir að um úrvalshráefni sé að ræða sem komi til með að nýtast Samhjálp fram eftir haustinu. „Núna fór bæði ferskur þorskur, ómarineraður, og svo þorskur í sítrusmarineringu sem við vorum með á Fiskidaginn. Einnig svolítið af bleikju og svo var svolítið eftir af fiskipylsunum, svokölluðum „filsum“. Svo eru þetta pylsubrauð, súpubrauð og alls konar kræsingar.“

Fastur liður í Fiskideginum mikla er hið rómaða fiskisúpukvöld þar …
Fastur liður í Fiskideginum mikla er hið rómaða fiskisúpukvöld þar sem íbúar bjóða heim í súpu. Ljósmynd/Bjarni Eiríksson

Halda hátíðarhöldunum áfram

Þá verður einnig slegið til veislu á morgun á hjúkrunarheimilinu Mörkinni, þar sem Fiskidagurinn litli verður haldinn í fjórða sinn í boði Fiskidagsins og Samherja. Þar verður m.a. boðið upp á fiskborgara, dýrindis fiskisúpu og fleiri fiskrétti.

„Upprunalega kemur hugmyndin frá Mörkinni. Þau áttu afmæli og starfsfólkið langaði til þess að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Við höfum sent hráefni og varning, blöðrur, Fiskidagsblaðið og Fiskidagsdót. Eins sendum við diskinn með tónleikunum frá því árið áður og þau horfa á það og það myndast stemning. Þetta hefur heppnast alveg ofboðslega vel og mikil ánægja með þetta meðal fólksins.“

Hann segir að margir íbúanna hafi áður lagt leið sína á Fiskidaginn í 18 ára sögu hans en komist ekki lengur vegna aldurs. „Þarna er fólk sem hefur komið á Fiskidaginn en kemst ekki lengur og langar að taka þátt í stemningunni.“ 

Á Mörkinni eru 240 íbúar og starfsmenn eru um 200 talsins. Þá er búist við að vinir og ættingjar íbúa taki þátt í gleðskapnum. Friðrik V., yfirkokkur Fiskidagsins mikla, mætir á staðinn og tónlistarmaðurinn KK spilar fyrir gesti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert