Náttúruöflin áþreifanleg í Hítardal

„Þetta er óþægilegt. Maður veit ekki um framhaldið, maður bíður bara eftir því að eitthvað gerist eða ekki. Það er óþægilegt að þurfa kannski að bíða lengi, mörg ár jafnvel. Það lítur allavega út fyrir að þetta muni gerast einhverntímann, en það er ekki við það ráðið hvenær það verður,“ segir Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal, um sprunguna sem hefur myndast í Fagraskógarfjalli í Hítardal í kjölfar skriðunnar sem féll þann 7. júlí. Skriðan endaði aðeins ör­fá­um kíló­metr­um frá bæ Finn­boga.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is nálguðust skriðusárið við lónið sem skriðan myndaði, leið ekki á löngu þar til drunur tóku að heyrast og allmikill rykmökkur steig upp úr fjallinu. Náttúruöflin eru áþreifanleg í Hítardal og setur skriðusárið mark sitt á dalinn.

„Þetta er bara náttúran“

Finnbogi segir bændur á svæðinu ekki hafa talað sig saman um það hvernig skuli bregðast við aðstæðum, þar sem erfitt sé að varast hrunið með nokkrum hætti ef til þess kemur. 

„Maður passar sig bara að vera ekki á svæðinu þarna. Annað er svo sem ekki hægt að varast held ég. Þetta er bara náttúran,“ segir Finnbogi.

Sprung­an upp­götvaðist um síðustu helgi þegar starfs­menn Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru með æf­ing­ar í grennd við fram­hlaupið í Hít­ar­dal. Sprung­an hef­ur opn­ast á fjall­inu skammt frá brotsári fram­hlaups­ins og er á sömu slóðum og hrunið sem varð úr toppi fram­hlaups­ins 13. júlí í inn­an­verðu skriðusár­inu.

Rykmökkur steig upp úr skriðusárinu þegar blaðamaður og ljósmyndari virtu …
Rykmökkur steig upp úr skriðusárinu þegar blaðamaður og ljósmyndari virtu svæðið fyrir sér úr öruggri fjarlægð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sprenging gæti leyst óvissuna

Veður­stof­an greindi frá því að spild­an sem hef­ur losnað frá brún fjalls­ins sé á bil­inu 50-150 þúsund rúm­metr­ar, en hrun af þess­ari stærðargráðu er ekki talið geta borist langt niður á lág­lendi og mun efnið því lík­lega falla ofan á fram­hlaups­urðina sem myndaðist í júlí.  

Finnbogi telur að best væri ef hrunið myndi falla sem fyrst, þar sem líða tekur að smölun og bændur á svæðinu vilja freista þess að búa til slóða fyrir skepnur yfir skriðuna þegar fram líða stundir. 

„Það er sennilega enginn tilbúinn til að sprengja þarna niður þannig að þetta sé farið, það er ekki von á því menn vilji það,“ segir Finnbogi sposkur, en þó skynjar blaðamaður nokkra alvöru í orðum hans. „Maður vill bara fá þetta niður strax. Þetta fer sjálfsagt þannig að skriðan sígur og á endanum verður hægt að búa til einhvern ýtuslóða þar yfir. Alla vega fyrir skepnur; hesta, kindur og slíkt.“

Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal.
Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal. mbl.is/Eggert

Setur mark sitt á smölun 

Hann segir að bændur í Hítardal hafi þá enn talsverðar áhyggjur af eftirköstum skriðunnar. „Við höfum enn þá áhyggjur af árfarveginum, vatninu í Hítaránni, mögulegum skemmdum og fiskgengd auk annars sem ekki liggur fyrir hvernig mun þróast. 

Einna helst valdi óvissan tengd sprungunni þó áhyggjum. „Óvissan er alltaf óþægileg, í hverju sem er náttúrulega. Og þetta er sérstaklega vont fyrir þá bændur sem nota þetta beitiland hérna fyrir vestan. Það fer að líða að því að þeir þurfi að reka féð til byggða og þeir hafa jafnan rekið féð beint niður úr fjallinu en þeir geta það væntanlega ekki núna,“ segir Finnbogi og bendir á að þeir taki eindaldlega ekki þá áhættu að reka féð niður í grennd við skriðusárið ef spildan skildi hrynja. 

Veðurstofan hefur varað við því að fólk nálgist skriðuna vegna hættu á að spildan hrynji. „Það er erfitt að passa að fólk sé ekki á svæðinu. Það mættu alveg vera fleiri skilti sýnileg, þá er allavega möguleiki fyrir fólk að fara eftir því,“ segir Finnbogi.  

Skriðan setur mark sitt á dalinn. Skriðan er ein sú …
Skriðan setur mark sitt á dalinn. Skriðan er ein sú stærsta sem fallið hef­ur á sögu­leg­um tíma á Íslandi, en sam­kvæmt mæl­ing­um Veður­stofu Íslands er hún 10 til 20 millj­ón­ir rúm­metra mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is