Settu upp „leikrit fyrir fjölmiðla“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.

„Þetta er í rauninni ótrúlegt og virðist hafa verið ákveðið leikrit fyrir fjölmiðla,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, um þá ákvörðun fulltrúa Sjálfstæðisflokks að ganga út af fundi ráðsins í morgun.

Fram kom í tilkynningu frá Sjálf­stæðflokknum, að full­trú­ar flokks­ins hafi ákveðið að víkja af fundinum vegna þess að þeir telji að ekki hafi verið staðið rétt að boðun fundarins og hann hafi því verið ólögmætur.

Sigurborg segir að lögmæti fundarins fari ekkert á milli mála og lögfræðingar, bæði sviðsins og hjá miðlægri stjórnsýslu, hafi staðfest það.

„Allir fulltrúar ráðsins vissu af fundinum enda voru allir mættir. Það er hins vegar rétt að það voru tæknilegir örðugleikar í tölvukerfinu hjá okkur í gærmorgun sem að olli því að fundardagskrá var ekki tilbúin fyrr en fjórum tímum of seint,“ segir Sigurborg. 

Sjálfstæðisfólk kvartaði einmitt undan því að fulltrúar flokksins hafi ekki fengið fundarboð á réttum tíma og engin dagskrá hafi fylgt fundarboðinu. Sigurborg segir að hún hafi greint frá því við upphafi fundarins í morgun að málum sem væru afgreidd á fundinum yrði frestað ef þess væri óskað. 

„Við vorum með ráðgjafa sem komu utan úr bæ til að kynna fyrir okkur mikilvæg verkefni ásamt verkefnastjórum. Það var mikið af kynningum sem var gott að fara í gegnum en þau kusu að ganga út af fundinum og fá þá ekki þessar kynningar. Það er óskiljanlegt ef þú vilt taka upplýsta ákvörðun og vera vel inni í málunum,“ segir Sigurborg.

Hún hefur boðað til aukafundar á föstudagsmorgun til að klára útistandandi mál vikunnar.

„Það er áhugavert að fyrir kosningar var Sjálfstæðisflokknum tíðrætt um hvað skipulagsmálin gengu hægt og að það þyrfti að stytta ferla og fleira í þeim dúr til að koma húsnæði upp sem fyrst. Síðan ganga þeir út af fundi og leggja í raun til að fundi verði frestað fram í næstu viku en það er ekki boðlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert