Þriðjungur á biðlista fer ekki í meðferð

Um miðjan júlí voru 534 skráðir á biðlista eftir innlögn …
Um miðjan júlí voru 534 skráðir á biðlista eftir innlögn á Vogi.

Það sem af eru þessu ári hefur þriðjungur þeirra sem hafa verið skráðir á biðlista á Vogi ekki skilað sér í meðferð þegar rými losnaði. Hlutfallið hefur haldist svipað síðustu þrjú ár. Um miðjan júlí voru 534 skráðir á biðlista eftir innlögn.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, þingmanns Pírata, um biðlista á Vog.

Í svarinu kemur einnig fram að á síðasta ári létust 15 sem voru á biðlista eftir innlögn og 11 árið þar á undan.

Markmið um biðtíma eru ekki skilgreind en bendir ráðherra á að það sé í verkahring embættis landlæknis að fylgjast með biðtíma eftir þjónustu. „Það eftirlit hefur aðallega beinst að skurðaðgerðum, en vilji er til þess innan velferðarráðuneytisins að færa eftirlitið til annarrar þjónustu einnig,“ segir í svari ráðherra.

Ráðherra segir að fyrirhugað sé að hefja stefnumótun um meðferðarúrræði fyrir fólk með fíknivanda. Í þeirri vinnu verður m.a. athugað hvort framboð meðferðarúrræða sé nægilega fjölbreytt hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert