Andarnefjur í sjálfheldu í Engey

Andanefja í Engey.
Andanefja í Engey. Ljósmynd/Guðlaugur Ottesen Karlsson

„Þær eru ekki algengar á þessu svæði. Það er mjög sjaldgæft að við fáum andarnefjur inn á flóann og oftast eru þær fleiri. Okkur finnst það skrítið að það séu bara tvö dýr. Þær hafa verið að elta einhverja fæðu og kannski voru fleiri dýr sem við sáum ekki,“ segir Sverrir Tryggvason skipstjóri hjá Sérferðum. Tvær andarnefjur liggja fastar í sjálfheldu í Engey í Kollafirði.

„Þær eru alveg fastar ennþá og það er langt í að það komi flóð. Við erum komin með tvær vatnsdælur sem eru nokkuð öflugar og erum að dæla stöðugt vatni á þær. Sólin er búin að þurrka þær þannig við erum með handklæði og lök yfir þeim til að halda þeim blautum,“ segir Sverrir.

Starfsmenn Sérferða, Eldingar og Whale Safari reyna nú hvað þeir geta til að halda lífi í andanefjunum tveimur og að sögn Sverris hafa sjávarlíffræðingar nú bæst í hópinn.

„Þetta mjakast. Það er bara beðið eftir flóði. Það verður bara að koma í ljós hvað við getum gert. Þær hreyfa sig ekki mikið núna. Þær tóku smá kippi þegar við byrjuðum að úða á þær vatni en þær liggja bara kyrrar núna og eru liggur við að kremjast undir eigin þunga. Þær eru svona 4-5 tonn að þyngd og bæði dýrin virðast vera kvendýr.“

Samkvæmt Sverri varð skipstjóri Sérferða var við andarnefjurnar um klukkan eitt í dag og að þær hafi þá verið í flæðarmálinu en ekki jafn langt uppi í fjörunni og þegar hann kom á svæðið.

Sverrir segir það ekki vera möguleika að koma dýrunum aftur til sjávar öðruvísi en að bíða eftir flóði. „Ekki ef við ætlum að ná þeim á lífi. Það eru nokkrir metrar niður í sjó. Eini möguleikinn er að bíða eftir háflóði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert