Aukin nýting refsinga utan veggja fangelsa

Að sögn Páls E. Winkel fangelsismálastjóra eru lengri refsingar utan …
Að sögn Páls E. Winkel fangelsismálastjóra eru lengri refsingar utan fangelsa nýttar meira. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að sjá vinnu dómsmálaráðherra vera að skila sér en það mun auðvitað taka tíma að vinda ofan af þessum boðunarlistum sem eru uppsafnaður vandi,“ segir Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, um fækkun fólks á boðunarlistum fangelsa hér á landi.

Að hans sögn spilar aukin nýting refsinga utan fangelsa þar stóran þátt auk þess sem dómar sem hægt er að afplána með samfélagsþjónustu eru lengri en áður.

Eins og áður hefur komið fram fækkaði fólki sem bíður þess að hefja afplánun í fangelsum hér á landi í ár og er það í fyrsta sinn sem það gerist frá hruni. Nú bíða um 530 manns þess að hefja afplánun en þegar mest lét árið 2017 var fjöldinn 618. Spurður hvort rekja megi hluta fækkunar fólks á boðunarlistum til fjölgunar í fyrningum dóma kveður Páll nei við. Það sé þó enn eitthvað um að dómar fyrnist vegna plássleysis en þeim fari fækkandi. „Það er mjög lítill hluti af þessu vegna fyrningar, nánast ekki neitt. Við stefnum auðvitað á að þeim fækki enn frekar, en þetta er ekki mikill fjöldi í stóra samhenginu. Það sem er fagnaðarefni er að boðunarlistar eru að styttast auk þess sem þeir munu halda áfram að styttast gangi áætlanir eftir,“ segir Páll, en það sem af er ári hafa 20 dómar fyrnst. Árið 2017 voru þeir 28 en árið áður voru þeir 34 talsins og hefur því farið fækkandi síðustu ár.

Páll segir að breyting laga árið 2016, þar sem hámarksrefsing óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar sem heimilt er að fullnusta með samfélagsþjónustu var hækkuð úr níu mánuðum í tólf, hafi hjálpað til við að stytta boðunarlista. Þá ljúki einnig talsverður fjöldi fólks lengri refsingu með rafrænu eftirliti heima hjá sér.

Horfa verður til ýmissa þátta

Fjöldi veittra leyfa til afplánunar refsingar með samfélagsþjónustu það sem af er ári er 95, sem bendir til þess að þeim muni fjölga frá því í fyrra, þegar fjöldinn var 99. Þess utan hafa 95 manns afplánað vararefsingu fésektar með samfélagsþjónustu það sem af er ári, sem er sambærilegur fjöldi og allt árið í fyrra, eða 96.

Í skriflegu svari frá Fangelsismálastofnun kemur þó fram að þrátt fyrir að veittum leyfum til samfélagsþjónustu sé ekki að fjölga mikið eða jafnvel fækka frá árinu 2014 verði að taka tillit til ýmissa þátta. Þá verði að horfa til þess að nú sé hægt að afplána talsvert lengri dóma utan fangelsa en mögulegt var á þeim tíma. „Aukin nýting lengri refsinga utan fangelsa er að skila sér í styttri boðunarlistum, sem er mjög gott,“ segir Páll.

Spurður um í hverju starf fólks sem sinni samfélagsþjónustu felist segir Páll það geta verið margvíslegt. „Þetta er tímabundið og ólaunað starf sem kemur í stað fangelsisvistar. Þetta geta verið störf hjá íþróttafélögum, kirkjunni, sambýlum eða öðrum hjálparstofnunum. Auk þess að þetta hefi uppeldislegt gildi held ég að margir hafi á tilfinningunni að þeir séu að gera gagn. Þá eru margir sem halda áfram að vinna á þessum stöðum þegar afplánun lýkur,“ segir Páll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert