Brýtur í bága við dýravelferð

Herdís Hallmarsdóttir, formaður HRFÍ, með hundana Sindra og Gabby. Hún …
Herdís Hallmarsdóttir, formaður HRFÍ, með hundana Sindra og Gabby. Hún segir núverandi regluverk um einangrun brjóta gegn dýravelferð. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem við skiljum ekki og höfum ekki fengið haldbær rök fyrir, er hvers vegna lengri einangrun en 10 dagar er nauðsynleg þegar strangasta löggjöfin utan Íslands er 10 dagar,“ segir Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ), í samtali við mbl.is.

Félagið sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem kallað var eftir áhættumati landbúnaðarráðuneytis um einangrunarvist gæludýra sem átti að vera tilbúið í apríl á þessu ári. Tilefnið var nýleg grein þriggja vísindamanna sem segja sníkjudýr hafa borist með innfluttum gæludýrum í íslenska dýrastofna. „Ég hef áhyggjur af að þessi samantekt frá Keldum, sem kemur á þessum tímapunkti, sé sett fram í pólitískum tilgangi,“ segir Herdís.

HRFÍ hefur lengi viljað endurskoðun á regluverkinu, sem er orðið 15 ára gamalt, enda er það mat félagsins að núverandi einangrunarreglur brjóti í bága við lög um dýravelferð.

„HRFÍ er með meira en 3.000 félaga og það er yfirlýst stefna félagsins að það eigi að krefjast endurskoðunar á reglum um einangrunarvist og þá með tilliti til þess hvort dýravelferð krefjist þess að hægt sé að afnema eða stytta einangrunarvistina og gera hana bærilegri,“ segir Herdís. 

Samkvæmt núverandi regluverki ber þeim gæludýrum sem flutt eru til landsins að sæta fjögurra vikna einangrun. Er regluverkið tók gildi tíðkaðist einangrunarvist gæludýra í fleiri löndum, m.a. Noregi, Bretlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Einangrunar er enn krafist í síðast nefndu tveimur löndunum, en er þá ekki nema 10 dagar og er eiganda heimilað að heimsækja dýrið meðan á dvölinni stendur. Herdís segir enga skýringu hafa verið gefna á því af hverju svo sé ekki líka hér.

„Ég veit ekki um neitt annað ríki með svona langan einangrunartíma eins og Ísland,“ segir hún. „Þó er altalað að Ástralía sé með hörðustu reglurnar um allt sem varðar innflutning á lifandi dýrum eða landbúnaðarvörum.“ Þar gilda líka takmarkanir um að þeir sem þangað koma mega ekki koma til landsins með skítuga skó þar sem þeir hafa t.d. verið uppi í sveit í öðrum löndum. Brot á þeim reglum getur varðað háum sektum.

Hundum og köttum er gert að sæta fjögurra vikna einangrun …
Hundum og köttum er gert að sæta fjögurra vikna einangrun í sérstökum einangrunarstöðvum, en önnur gæludýr fá að vera í heimaeinangrun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki með sóttvarnir gegn farfuglum

Hér á landi virðist gæludýrin hins vegar ein um að sæta slíkum hömlum.

„Þegar verið er að tala um sóttvarnir þá verður að gera það í víðari skilningi og þess vegna erum við svo óhress með þessa grein,“ segir Herdís. 

Þannig berist skógarmítillinn, eitt þeirra dýra sem nefnd séu í greininni til að mynda til landsins með farfuglum „og ekki erum við með sóttvarnir gagnvart farfuglum. Við erum heldur ekki með sama fjölda ferðamanna og 2003, því sá fjöldi hefur margfaldast,“ bætir hún við og segir ekki hægt að útiloka að sníkjudýr berist til landsins með ferðafólki, íslensku sem erlendu. Eins komi jólatré og gróðurmold til landsins í gámavís án þess að einangrunar sé krafist.

„Það er hægt að setja fram ýmsar tilgátur um hvaðan þessi skordýr koma og ef við erum sammála um að við séum með viðkvæmt lífríki á Íslandi þá þarf að skoða heildstætt hvaða sóttvarnir eru mögulegar og tækar. Þess í stað er verið að ríghalda í einhver örfá gæludýr og það finnst mér hvorki standast skoðun né skynsemi.“ 

Engin sóttkví bíði þeirra sem umgangast dýr erlendis áður en þeir koma hingað. Þeir hundar og kettir sem koma hingað til lands þurfi hins vegar að sæta fjögurra vikna dvöl í einangrunarstöð, á meðan önnur gæludýr geta sætt heimaeinangrun.

Hafa farið illa út úr einangrunarvistinni

Þegar komið er til Keflavíkur er dýrið látið undirgangast læknisskoðun áður en það er sótt af starfsmönnum einangrunarstöðvar. Er í einangrunarstöðina er komið dvelja dýrin í stíum. „Þar eru þau ein utan að starfsmenn stöðvarinnar sjá um að grunnþörfum þeirra er sinnt. Það er bara ekkert nóg,“ segir Herdís. „Þetta eru íþyngjandi reglur og slíkar reglur þurfa að eiga viðhlítandi stoð og þurfa sem slíkar að byggjast á rökum og nauðsyn. Ef það er ekki nauðsynlegt þá á ekki að viðhafa slíkar íþyngjandi reglur.“

Sjálfri er henni kunnugt um að dýr hafi farið illa út úr einangrunarvistinni.  „Ég veit að það leggst misvel í hunda að vera svona einangraðir,“ segir hún. Ekki sé þó við starfsfólk einangrunarstöðvarinnar að sakast. „Það er gott fólk og við erum heppin í dag, en við getum ekki treyst því að þetta fólks starfi þar út í hið óendanlega.“ Ekki sé heldur hægt að leggja það að jöfnu að sinna grunnþörfum dýranna og veru þeirra með fjölskyldunni sinni. „Ég veit það líka á eigin skinni að þetta hefur farið illa í hunda. Ég hef verið með hund sem ég þurfti að umhverfisþjálfa upp á nýtt og ég hef verið með í höndunum dýr sem þjáðist af aðskilnaðarkvíða eftir einangrunarvistina. Þannig að þetta er dýrunum ekki auðvelt, enda ekki hægt að útskýra fyrir þeim hvað sé að gerast.“

Langir biðlistar eru enn fremur eftir að koma dýrum að í einangrun. Þegar þetta er ritað er næsta lausa pláss fyrir hund í febrúar á næsta ári, en laust er fyrir ketti á haustmánuðum. „Ég veit því miður um tilvik þar sem fólk hefur þurft að finna dýrinu sínu annað heimili vegna þess að það kaus að flytja til Íslands,“ segir Herdís. „Eins veit ég um tilvik þar sem fólk hefur ekki séð sér annarra kosta völ en að fella dýrið. Alheilbrigt dýr sem var hluti af fjölskyldunni og þetta var vegna þess að fólkið áttaði sig ekki á að það væri svona ofboðslega langur biðlisti og það hafði ekki efni á að láta dýrið bíða svo lengi úti.“ Hún kveðst ekki geta ímyndað sér sorgina sem þetta fólk upplifir.

Skógarmítill berst m.a. til landsins með farfuglum segir Herdís og …
Skógarmítill berst m.a. til landsins með farfuglum segir Herdís og nefnir sem dæmi um misræmið að ekki standi til að setja farfugla í sóttkví.

Gert að fara strax með hundinn úr landi eða fella hann 

Matvælastofnun (MAST) sýnir nokkurn ósveigjanleika er kemur að komutíma dýranna, en tekið er við dýrum í einangrun yfir þriggja daga tímabil í hverjum mánuði og eiga þau helst að koma til landsins á milli kl. 5-17 þessa daga.

„Ég veit um dæmi um eigendur dýra sem hafa lent í vandamálum vegna atriða sem þeim varð ekki um kennt,“ segir Herdís. „Í einu tilfelli var misritun á örmerki sem dugði til þess að eiganda var gert að fara samstundis með dýrið úr landi eða það yrði fellt. Eins hafi hundur fótbrotnað í einangrunarstöðinni og upphaflega hafi ekki átt að gera að meiðslum hans. 

Hún segir að þegar regluverk stríði gegn því sem fólki finnst eðlilegt og sanngjarnt þá hætti það að bera virðingu fyrir því. „Það væri því öllum til hagsbóta að framkvæma faglegt áhættumat, endurskoða reglurnar og ganga ekki lengra en nauðsyn krefur til að verja þá hagsmuni sem okkur er ætlað að verja.“ Ef það þýði að taka þurfi upp annars konar eftirlit verði svo að vera. Það fari til að mynda lítið fyrir ábendingum til erlendra ferðamanna sem fara í hestaferðir hér á landi um að þeir megi ekki nota fatnað sem þeir kunna að hafa klæðst í reiðtúrum erlendis.

„Það þarf að meta heildstætt alla áhættuþættina, hverjar eru smitleiðirnar og hvar liggur áhættan?“ segir Herdís og kveður þá stefnu að áhættan sé jafnmikil sama hvaðan dýrið sé að koma vera gagnrýniverða. „Er sama áhætta að flytja hund frá Noregi sem er tiltölulega sjúkdómsfrítt land eða að flytja inn hund frá Afríku?“ spyr hún. Í dag sé ekki gerður neinn greinarmunur á þessum löndum. 

Ekki sé síður spurnarvert hvað rökstyðji núverandi tímalengd einangrunar, fjóra vikur.

„Hvað þarf langan tíma til að skoða niðurstöður og taka saursýnið sem tekið er við komu dýrsins til landsins og rannsaka það?“ segir Herdís og kveður HRFÍ ekki hafa fengið nein haldbær rök við þessari tímalengd.

„Mér er hins vegar kunnugt um tilvik þar sem hundur slapp. Hann átti ekki að stoppa á Íslandi heldur eingöngu millilenda, en hann slapp úr búri sínu og hljóp um á Keflavíkursvæðinu og nágrenni þar sem hann var laus í einhvern tíma. Ég veit að það tók ekki nema viku að greina þau sýni og og af þessu dreg ég þá ályktun að hægt sé að gera þetta á styttri tíma en nú er. Hvað bætir það því að hafa dýrið lengur í einangrun?“ segir Herdís og kveður pott víða brotinn í einangrunarmálum.

„Starfsfólk MAST á að viðhafa meðalhóf og við viljum að það eigi við í öllum tilvikum út frá sjónarmiði dýravelferðar.“

mbl.is