Floti Flugakademíu Keilis kyrrsettur

Frá Ásbrú í Reykjanesbæ þar sem Keilir hefur aðstöðu.
Frá Ásbrú í Reykjanesbæ þar sem Keilir hefur aðstöðu. Ljósmynd/Keilir

Floti Flugakademíu Keilis á Keflavíkurflugvelli hefur verið kyrrsettur. Samgöngustofa tók ákvörðun um það í samráði við stjórn skólans en ástæðan er sú að flugvirki sem vottað hefur ástand vélanna hefur ekki réttindi til þess. RÚV greinir frá.

Í samtali við RÚV segir Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keils, að skólinn standi nú í endurskipulagningu á öllu viðhaldskerfi sínu. Við innra eftirlit hafi hnökrar komið í ljós á verkferlum sem snúa að viðhaldi kennsluvéla og var Samgöngustofa látin vita af þeim. Í kjölfarið hafi ákvörðunin verið tekin með hagsmuni nemenda og starfsmanna að leiðarljósi. Hann telst þó sannfærður um að mistökin hafi engin áhrif haft á gæði viðhalds Flugakademíunnar þó pappírsvinna hafi ekki verið eins og best verður á kosið.

Rúnar segist aðspurður ekki vita hvenær kyrrsetningunni verður aflétt en vonast til að það verði sem allra fyrst enda séu allir bekkir skólans fullsettir og ljóst að kyrrsetningin mun tefja verklega kennslu.

Þetta er í annað sinn sem floti Flugakademíunnar er kyrrsettur en það gerðist einnig í apríl í fyrra. Stóð hún þá yfir í nokkrar vikur en var aflétt eftir úrbætur skólans.

Ljósmynd/Keilir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert