Tveir kílómetrar fullgerðir í haust

Tveir kílómetrar verða teknir í ár. Sjö á því næsta.
Tveir kílómetrar verða teknir í ár. Sjö á því næsta. mbl.is/Sigurður Bogi

Framkvæmdum á Þingvallavegi miðar ágætlega, að sögn Einars Más Magnússonar, verkstjóra hjá Vegagerðinni. Níu kílómetra kafli sem liggur um þjóðgarðinn hefur verið lokaður frá 30. júlí en til stendur að breikka veginn um tvo metra, koma upp vegriði og ráðast í aðrar öryggisaðgerðir.

Slitlag hefur verið rifið af veginum en einhverjar vikur eru í að malbikun hefjist. Einar segir stefnt að því að tveggja kílómetra kafli verði fullgerður nú í sumar og haust en hinir sjö kílómetrarnir bíði næsta árs. Upphaflega var stefnt að því að hefja framkvæmdir í vor en þær töfðust vegna kærumála. Af þeim sökum komast menn yfir minna í ár en á því næsta.

Hjáleiðin þröng fyrir rútur

Umferð er nú beint um hjáleið um Vallaveg, sem liggur niðri við Þingvallavatn. Einar segir veginn vera mjóan og hægfarin. „Þetta er jafnan bara túristavegur,“ segir hann og bætir við að vegurinn þoli ekki vetrarumferð. Því verði að hætta framkvæmdum á Þingvallavegi og opna hann umferð þegar vetrar. Miðað er við að framkvæmdum verði hætt í október en nákvæm tímasetning ræðst af veðri. „Ef veðrið er skaplegt teygjum við okkur lengra inn í haustið og komumst þá yfir meira í ár. Við þurfum þá að gera minna á næsta ári.“

Einar segir umferð um Vallaveg hafa gengið þolanlega og engin teljandi óhöpp komið upp. Hámarkshraði á veginum er 50 kílómetrar á klukkustund nema á syðsta kaflanum, sem er þrengstur, en þar er hámarkshraðinn 30 og merkt í bak og fyrir. Til samanburðar er hámarkshraði 70 á Þingvallavegi.

Umferð er nú beint um Vallaveg sem liggur niðri við …
Umferð er nú beint um Vallaveg sem liggur niðri við Þingvallavatn en hann liggur til að mynda að tjaldstæðinu í Vatnsvík. Ljósmynd/Aðsend

Vegagerðin hefur þurft að ráðast í minni háttar endurbætur á Vallavegi til að hann sé fær um að taka við umferð og fengið til þess leyfi þjóðgarðsins. Þannig hefur stæði verið bætt við í suðurendanum til að rútur geti þar mæst. Önnur víkur þá af veginum inn á stæðið meðan hin keyrir fram hjá.

Þá var trjágróður í vegkanti Vallavegar klipptur í síðustu viku en hann teygði sig á köflum inn á veg og segir Einar að hann hafi rispað einhverja bíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert