Birtir erindi framkvæmdastjóra KVH

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, segist geta sannað hvaðan …
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, segist geta sannað hvaðan hún fékk upplýsingar um mál fjármálastjóra borgarinnar og birtir tölvupósta þess efnis. Skjáskot

„Á fundi forsætisnefndar sem var að ljúka rétt í þessu sá ég mig knúna til að leggja fram tölvuskeyti frá framkvæmdastjóra Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Ég hef því að fullu upplýst hvaðan ég fékk upplýsingarnar og hafna alfarið meintum trúnaðarbresti úr borgarráði,“ segir Vigdís Hauksdóttir í tölvupósti til fjölmiðla í dag.

Bakgrunnur málsins er að Stefán Eiríksson borgarritari sendi Vigdísi tölvupóst eftir að hún tjáði sig um málið og segir hún Stefán rang­lega saka sig um að hafa brotið trúnað borg­ar­ráðs með því að hafa tjáð sig um skaðabóta­málið sem Reykja­vík­ur­borg tapaði.

Stefán vildi meina að hún hefði veitt opinberlega upplýsingar af fundi borgarráðs, en Vigdís hefur sagst hafa haft upplýsingar um málið frá framkvæmdastjóra Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Með tölvupósti Vigdísar fylgja tveir tölvupóstar frá Halli Páli Jónssyni, framkvæmdastjóra Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, sem sendir voru öllum oddvitum í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.

Þar kemur fram gagnrýni Halls Páls í garð æðstu embættismanna borgarinnar og segir hann þá ekkert hafa lært eftir að borgin tapaði máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sneri að áminningu sem skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra veitti fjármálastjóra borgarinnar.

Í tölvupóstunum frá framkvæmdastjóranum koma fram ýmsar athugasemdir við málaferli borgarinnar ásamt upplýsingum um efnisatriði úr máli fjármálastjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert