Fer lengra ef söfnunin gengur vel

Unnur Lilja, Bragi og Valdís halda á Ólöfu systur sinni.
Unnur Lilja, Bragi og Valdís halda á Ólöfu systur sinni. Ljósmynd/Kraftur

„Við völdum að hlaupa fyrir Kraft því systir okkar þriggja, Ólöf, greindist með heilaæxli þegar hún var einungis þrítug,“ segir Unnur Lilja Bjarnadóttir. Hún og fjölskylda hennar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun til stuðnings Krafti; stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur.

Ólöf Bjarnadóttir hefur barist í fimm ár við heilaæxli og er núna í þriðju meðferðinni. Unnur segir að fjölskyldan hafi kynnst starfinu hjá Krafti í gegnum hana.

„Okk­ur finnst vit­und­ar­vakn­ing­in sem þau hafa verið í síðasta árið mik­il­væg. Mér finnst minna ta­bú að tala um veik­indi. Þó að þetta sé leiðin­legt umræðuefni þá er fólk minna hrætt að tala um þetta og Kraft­ur hef­ur unnið vel að því,“ segir Unnur.

Hún segir að það megi ræða veikindin við aðstandendur, þótt umræðuefnið sé ekki það skemmtilegasta. „Þetta er ekki eitt­hvað sem á að grafa ofan í skúffu og fjöl­skyld­an sér bara um.“

Mikið íþróttafólk en ekki vanir hlauparar

Fjölskyldan safnar áheitum undir nafninu Selalækjar-krafturinn en þau eru alls átta; þrjú systkini, þrír makar og tvö börn. Krakkarnir ætla í skemmtiskokkið og fullorðna fólkið ætlar tíu kílómetra, nema mágur Unnar sem ætlar hálft maraþon.

Unnur segir að hún gæti farið lengra en tíu kílómetra en það fer allt eftir því hvernig söfnunin gengur. Þegar þetta er skrifað hefur Selalækjar-krafturinn safnað 522 þúsund krónum. Markmiðið er að safna einni milljón og ef það gerist í kvöld þá ætlar Unnur að fara hálft maraþon í fyrramálið:

„Ég var búin að lofa að fara í 21 km ef við fær­um í millj­ón. Ég krossa fing­ur og vona að það sé ekki næg­ur tími en mun ekki skor­ast und­an því,“ segir hún og hlær.

Unnur segir að flestir í fjölskyldunni séu mikið íþróttafólk en þau eru ekki miklir hlauparar. „Við erum flest mikið í Crossfit,“ segir Unnur og segist aðspurð ekki kvíða hlaupinu í fyrramálið:

„Ekki nema ég þurfi að hlaupa hálft maraþon!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert