Júlíus Vífill ákærður

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl./Eggert Jóhannesson

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti af embætti héraðssaksóknara. Júlíus greinir sjálfur frá ákærunni á Facebook og eins hefur héraðssaksóknari staðfest hana við mbl.is. Kjarninn greindi fyrst frá málinu. 

Ákæran var send til héraðsdóms 28. júní frá embætti héraðssaksóknara en hún hefur ekki verið birt Júlíusi formlega þar sem málið hefur tafist.

Á Facebook í morgun skrifar Júlíus Vífill:

„Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum.

Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum. Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi.

Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“

 Líkt og fram kom á mbl.is í byrjun september þá var Júlí­us Víf­ill til rann­sókn­ar hjá embætti héraðssak­sókn­ara grunaður um stór­felld skattsvik og pen­ingaþvætti.

Lögmaður hans Sig­urður G. Guðjóns­son mátti ekki vera verj­andi hans í mál­inu því héraðssak­sókn­ari hugðist kalla Sig­urð til skýrslu­gjaf­ar í fyrr­greindu máli. 

 Bætt við klukkan 10:30 

Júlíus Vífill vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við hann fyrir skömmu.

mbl.is