Skólabækurnar ódýrastar hjá Heimkaupum

Framhaldsskólanemar geta sparað sér töluverðar fjárhæðir með því að kaupa …
Framhaldsskólanemar geta sparað sér töluverðar fjárhæðir með því að kaupa bækurnar þar sem þær eru ódýrastar. mbl.is/Árni Sæberg

Töluverður verðmunur er á skólabókum fyrir framhaldsskólanema á milli verslana og gætu nemendur sparað sér töluverðar fjárhæðir með því að kaupa bækurnar þar sem þær eru ódýrastar. Allt að 5.349 kr. verðmunur var á einstakri bók í verðkönnun ASÍ sem var framkvæmd 15. ágúst.

Verð á nýjum bókum var kannað í verslunum A4, Skeifunni, Heimkaup.is, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Pennanum Eymundsson Austurstræti og Forlaginu Fiskislóð, en verð á notuðum bókum var kannað í A4 og Heimkaup.is.

Heimkaup var oftast með lægsta verðið í könnuninni, bæði á notuðum og nýjum skólabókum. Forlagið var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum en A4 á notuðum bókum. Forlagið var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða í 13 tilfellum af 34 en Bókabúð Iðnú í Brautarholti næstoftast eða í 10 tilfellum af 34.

Töluverður verðmunur var á nýjum bókum í verðkönnuninni en í 17 tilfellum af 34 var yfir 1.000 kr. munur á hæsta og lægsta verði og í 11 tilfellum var yfir 1.300 kr. munur á hæsta og lægsta verði. Heimkaup var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum eða í 44% tilfella, en A4 var næst oftast með ódýrustu bækurnar eða í 26% tilfella.

Notaðar bækur allt að helmingi ódýrari

Mikill verðmunur var á nýjum og notuðum bókum í könnuninni. Notaðar bækur voru í öllum tilfellum, nema einu, dýrari í A4 en hjá Heimkaupum eða í 12 af 13 tilfellum og í öllum tilfellum var álagningin meiri hjá A4 en hjá Heimkaupum.

ASÍ tekur fram að ástand notaðra bóka geti verið mjög misjafnt. Þá hafi úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum verið mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð. Úrvalið geti hins vegar breyst með skömmum fyrirvara.

Þá er tekið fram að aðeins sé um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki sé lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Verð breytist einnig ört vegna ýmiss konar tilboða. Mál og menning hafi til að mynda verið með 20% afslátt á öllum sínum bókum þegar könnunin var framkvæmd en verð í könnuninni eru með afslætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert