Dagurinn sem allt breyttist

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir.
Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. mbl.is/Valli

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir missti bróður sinn, Bjarka, úr heilahimnubólgu árið 1993. Tuttugu og fimm árum eftir andlát hans heiðrar hún minningu hans með stórtónleikum í Hörpu. Hún segist að hluta til gera það fyrir foreldra sína og bræður því minningin verði að fá að lifa.

Þegar blaðamaður hringir dyrabjöllunni hjá Sigríði Eyrúnu, eða Siggu eins og hún er alltaf kölluð, liggur við að hann fyllist samviskubiti yfir því að ætla að taka viðtal við hana innandyra. Sólin skín skært þennan dag og heitt er í veðri, nokkuð sem höfuðborgarbúar höfðu beðið eftir með óþreyju. En Sigga tekur brosandi á móti blaðamanni og samviskubitið hverfur eins og dögg fyrir sólu. Bókstaflega. Sigga býður blaðamanni til sætis í stórum þægilegum sófa í stofunni þar sem sólin sendir hlýja geisla sína inn um gluggarúðurnar.

Söng- og leikkonan hefur í nógu að snúast þessa dagana en auk þess að vinna við að talsetja teiknimyndir er hún einnig að undirbúa stóra tónleika í Eldborgarsal Hörpu.

Lítil hugmynd sem vatt upp á sig

Tónleikarnir í Eldborg eru minningartónleikar um bróður Siggu, Bjarka, sem lést tæplega tvítugur árið 1993 úr heilahimnubólgu, og er ætlunin að safna fyrir Hammond-orgeli í minningu hans.

„Fyrst áttu þetta nú bara að vera minningartónleikar með Ðí Kommitments, hljómsveit sem Bjarki var að spila með á sama tíma og hann lést. En svo vatt þetta aðeins upp á sig og er orðið töluvert stærra í sniðum en ég lagði upp með í byrjun,“ segir Sigga og brosir. „Tónleikarnir verða haldnir sunnudaginn 26. ágúst en Bjarki hefði orðið fjörutíu og fimm ára 24. ágúst og nú í ár eru tuttugu og fimm ár síðan hann lést,“ bætir hún við.

„Það á að safna fyrir Hammond-orgeli sem verður í eigu félags sem búið er að stofna og mun halda utan um rekstur orgelsins í samstarfi við Hörpu tónlistarhús. Harpa mun sjá um að hýsa hljóðfærið, en það er mjög mikil vinna, og kostnaðarsöm, að flytja Hammond-orgel á milli staða,“ segir Sigga og bætir við að tónleikarnir verði mikil tónlistarveisla. Reyndustu og hæfileikaríkustu hljómborðsleikarar landsins muni koma fram ásamt öðru úrvalstónlistarfólki.

Límið í systkinahópnum

Bjarki var þremur árum eldri en Sigga, fæddur 24. ágúst 1973, og Sigga segir að þau hafi verið góðir vinir. Bjarki var vinamargur og Sigga segist ekki muna til þess að hann hafi nokkru sinni bannað henni að vera með sér og vinum sínum. „Bjarki var svo góður. Og ég held að ég sé alveg örugglega ekki að segja þetta bara af því að hann er dáinn. Hann var í alvörunni bara góður gæi sem passaði upp á sína. Og þegar hann dó var stórt skarð höggvið í fjölskylduna. Bjarki var límið í systkinahópnum. Auðvitað átti hann samt alveg sína slæmu daga eins og allir; það var til dæmis auðvelt að pirra hann,“ segir Sigga og bætir við hlæjandi: „Ég var örugglega ekki sérlega auðveld á gelgjunni, sem ég tók mjög snemma út. En við vorum alltaf mjög náin.“

Hún segir að það sé mikilvægt fyrir unglinga að eiga sitt auðkenni og hennar auðkenni hafi verið að hún var systir hans Bjarka. Það hafi þó ekki öllum þótt það jákvætt. Hún hafi jafnvel fengið á sig þann stimpil að vera systir hans í neikvæðri merkingu frá krökkum í skólanum, eins og það væri eitthvað slæmt. „Sem það var auðvitað bara alls ekki. Langt í frá. En ég fékk alveg að heyra það að ég væri alltaf að elta Bjarka og vini hans.“

Sigga og Bjarki sátu oft uppi í herberginu hans og hlustuðu saman á tónlist. „Við hlustuðum mikið á rokkóperuna Jesus Christ Superstar saman og sungum með. Og hann ráðlagði mér oft í tónlistarvali. Þegar ég var að góla með Whitney Houston og Mariuh Carey inni í herbergi bankaði hann nú stundum upp á og benti mér vinsamlega á að prófa eitthvað annað,“ segir Sigga og skellir upp úr. „Hann var svo mikill vinur minn. Hann var inni í öllum mínum vinamálum og gaf mér stóru-bræðra-ráð. Hann skipti sér samt ekki of mikið af, heldur kom með svona vinsamlegar ábendingar. Nokkrum dögum áður en hann dó gaf hann mér síðasta heilræðið.“ Sigga segist þá hafa verið að gráta undan vinkonu sem hafði sært hana endurtekið og Bjarki sagði að málið væri einfalt. Hún ætti bara að hætta að vera vinkona hennar og láta ekki bjóða sér þessa framkomu. Sigga fór að ráðum stóra bróður síns og segist enn þann dag í dag hugsa um þessi orð Bjarka. „Stundum ber maður ekki ábyrgð á mistökum annarra. Fólk gerir alls konar hluti í vanlíðan og undir áhrifum og svoleiðis. En þegar allt kemur til alls ber það ábyrgð á sjálfu sér.“

Var á leið á æfingu

Nokkrum mánuðum áður en Bjarki lést var hann farinn að spila á Hammond-orgel í hljómsveit sem kallaði sig Ðí Kommitments. Sveitin var sett saman fyrir nemendasýningu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Settur var upp söngleikur sem byggður var á kvikmyndinni The Commitments og sýndur á sviðinu á Hótel Íslandi við góðar undirtektir. Hljómsveitin hélt áfram að spila á böllum og skemmtistöðum eftir að sýningum á Hótel Íslandi lauk og Sigga segir að Bjarki hafi greinilega notið sín í botn og það hafi gefið honum mjög mikið að vera í hljómsveitinni. „Ég skynjaði að hann var að eignast nýja vini í þessum krökkum sem höfðu áhuga á því sama og hann og hann var að upplifa svo margt nýtt. Það bara opnaðist fyrir honum ný vídd. Vinahópurinn úr Seljahverfinu var auðvitað stór en það er hollt að eignast nýja vini á þessum aldri,“ segir Sigga.

Fimmtudaginn 13. maí 1993 átti hljómsveitin að spila á balli um kvöldið og hljómsveitarfélagarnir bjuggu sig undir að mæta í hljóðprufu. En Bjarki mætti ekki. Og hann átti ekki eftir að mæta á fleiri æfingar eða böll. Um kvöldið var hann allur.

Sigríður Eyrún ásamt Láru dóttur sinni.
Sigríður Eyrún ásamt Láru dóttur sinni. mbl.is/Valli

„Á miðvikudagskvöldinu var hann að kasta upp og leið eitthvað illa,“ segir Sigga. „Heilahimnubólga lýsir sér svolítið eins og slæm gubbupest eða flensa. Á þessum tíma var auðvitað ekki hægt að gúgla neitt og heilahimnubólga var ekkert í umræðunni. Það fyrsta sem á að tékka á þegar grunur leikur á að um heilahimnubólgu sé að ræða er að athuga hvort viðkomandi sé með stífleika í hnakka. Það er auðvitað athugað hjá börnum en það datt engum í hug þarna, enda var Bjarki orðinn hálffullorðinn; nítján, að verða tvítugur. Við bjuggum í þriggja hæða húsi og herbergið hans var á efstu hæð en allir hinir sváfu niðri. Þannig að mamma bað mig að sofa á dýnu inni hjá honum, sem ég gerði. Ef mömmu hefði grunað að hann væri með heilahimnubólgu hefði hún auðvitað aldrei beðið mig um það.“

Foreldrar Siggu fóru til vinnu næsta morgun og Sigga, sem var þá í sumarvinnu á útkallsvakt í bakaríi, var kölluð út vegna veikinda starfsmanns. Hún segist hafa spurt Bjarka hvort honum liði betur og hvort hann treysti sér til að vera einn. „Hann sagði bara jájá, hann ætlaði að leggja sig aftur og svo væri hann að fara að spila með hljómsveitinni um kvöldið. Þannig að ég fór í vinnuna. Einhverju seinna heyrði Viðar, yngri bróðir okkar, dynk af efri hæðinni og kom að Bjarka liggjandi á gólfinu.“ Hann hringdi í nágrannakonuna, sem var ljósmóðir og kunni fyrstu hjálp. Hún og dóttir hennar komu yfir og hringdu á sjúkrabíl og í foreldra systkinanna.

Sigga var ein að vinna í bakaríinu, sem var í Glæsibæ, þegar hún fékk símtal þar sem henni var sagt að Bjarki væri kominn upp á spítala og væri mikið veikur. „Ég brotnaði bara saman þarna á staðnum. Það var ekkert afdrep fyrir starfsfólkið þannig að ég sat þarna hágrátandi þegar einhver kona, sem var nú bara að fara að kaupa brauð, beið hjá mér þar til einhver kom til að leysa mig af.“ Það tekur greinilega á Siggu að rifja þetta upp þótt liðin séu tuttugu og fimm ár og hún tekur sér smáhlé áður en hún heldur áfram. „Ég kom upp á Borgarspítala [sem heitir nú Landspítali Fossvogi, innsk. blm.] og hitti þar mömmu og pabba. Svo sá ég lækninn og prestinn koma. Þá gat ég ekki verið þarna; þetta var bara of mikið. Þannig að ég fór heim til Auðar, vinkonu minnar. Svo hringir heimasíminn hjá þeim og ég bara vissi hvað hafði gerst. Foreldrar Auðar sögðu við okkur systkinin að mamma og pabbi væru komin heim svo við ættum að fara þangað. Ég man síðan bara eftir því að hafa komið heim og pabbi sagði mér fréttirnar. Svo man ég ósköp lítið. Næsta árið var svolítið þannig. Svolítið eins og ég væri í leiðslu.“

Sigga segir að vinahópurinn hafi verið ómetanlegur stuðningur og hún hafi sótt mikið í að vera með vinunum. Hún hafi átt erfitt með að vera heima. „Ég meikaði ekki að vera heima. Það var svo yfirþyrmandi og sorgin svo rosalega mikil.“ Sigga segist lengi á eftir hafa glímt við óstjórnlega reiði. „Mér fannst þetta svo hryllilega ósanngjarnt. Ég skildi þetta ekki. Og fannst enginn skilja mig.“

Bjarki, tæplega þriggja ára, að fá sér lúr hjá Siggu …
Bjarki, tæplega þriggja ára, að fá sér lúr hjá Siggu nýfæddri.

Skiptir máli að vanda til verka

Í dag einbeitir Sigga sér að tónlistinni að mestu og síðustu ár hefur hún unnið mikið við talsetningar á teiknimyndum og barnaefni. Sigga segist hafa mjög gaman af þeirri vinnu og blaðamanni finnst auðheyrt að henni finnist sú vinna afar mikilvæg, en því miður ekki alltaf mikils metin.

„Talsetningar eru gríðarlega mikilvægt tæki til að efla málvitund barna og það skiptir máli að gera þetta vel. Auðvitað á menntamálaráðuneytið að styrkja þessa vinnu. Talsetningar eru illa launaðar og öll vinna í kringum þær líka. Við erum með frábæra þýðendur sem fá ekki nógu vel borgað. Og mikið af þessu efni er endursýnt.

Verkefnunum er að fækka og íslensku sjónvarpsstöðvarnar eru farnar að kaupa miklu minna talsett efni. Það þarf meiri pening í þetta; annars færðu ekki atvinnuleikara í vinnuna eða almennilega þýðendur. Ég er ekki að tala allt talsett efni niður, margt er mjög vel gert, en mér finnst að við eigum að vanda okkur og vera góðar fyrirmyndir. Ekki henda bara einhverju í krakkana, ekki mata þá á einhverju efni þar sem ekki er töluð góð íslenska, með röngum áherslum á atkvæði og svo framvegis. Til þess þarf gott gæðaeftirlit með góðum leikstjórum, þýðendum, hljóðmönnum, hljóðkonum og leikurum. Börnin eiga betra skilið. Börn eru harðir gagnrýnendur. Það er hætta á því að þau horfi bara á efni á ensku á Youtube og ef börn eru mikið þar inni missa þau svo mikið af íslenskunni og styrkja ekki málvitundina.“

Þurftu bara að segja: Ég veit

Sigga kynntist sambýlismanni sínum, Karli Olgeirssyni, vorið 2013. Ástin kviknaði þegar Karl, eða Kalli eins og hann er alltaf kallaður, var fenginn til að leysa af sem píanóleikari í söngleikjaseríunni Ef lífið væri söngleikur. Hópinn skipuðu þau Sigga, Margrét Eir, Orri Huginn Ágústsson, Bjarni Snæbjörnsson og píanistinn Kjartan Valdimarsson.

„Ég varð skotin í honum Kalla undir eins, þetta var bara vandræðalegt,“ segir Sigga og skellihlær. „En ég lét hann alveg vita af því. Við Kalli vorum hvorugt einhverjir unglingar og þá er maður ekkert að eyða tímanum í einhverja leiki.“

Sigga og Kalli fóru að búa saman tæpu ári síðar og fljótlega varð Sigga ófrísk.

Hinn 3. janúar 2015 kom Nói Hrafn sonur þeirra í heiminn en hann lést fimm dögum síðar í kjölfar mistaka í fæðingu á Landspítalanum. Í maí sama ár leituðu Sigga og Kalli til landlæknis og lögðu fram kvörtun vegna andláts sonar síns. Niðurstaða landlæknis var að heilbrigðisstarfsmönnum hefðu orðið á vanræksla og mistök og þeir hefðu sýnt foreldrunum ótilhlýðilega framkomu í fæðingu. Sigga segir málið nú hafa verið í höndum saksóknara í eitt ár en það sé lítið um svör frá þeirri stofnun.

Bjarki spilaði á Hammond-orgel með hljómsveitinni Ðí Kommitments þegar hann …
Bjarki spilaði á Hammond-orgel með hljómsveitinni Ðí Kommitments þegar hann lést.


Rúmum tuttugu árum eftir að Sigga hafði horft upp á foreldra sína ganga í gegnum óbærilega sorg eftir sonarmissinn stóð Sigga í svipuðum sporum. Hún segist hafa öðlast djúpan skilning á þeirra sorg en þó ekki sambærilegri.

„Mamma og pabbi voru búin að ala upp barn í tæp tuttugu ár og upplifa allar þessar minningar sem ég átti ekki með mínum dreng. En það að missa barn er nokkuð sem enginn skilur nema hafa lent í því. Og það er skrýtið að segja það, en að einhver svona náinn mér, einhver sem þekkir mig best í öllum heiminum, sem eru mamma mín og pabbi, hafi getað tekið í höndina á mér og sagt: Ég veit… Þau þurftu ekki að segja neitt annað. Bara: Ég veit. Svo hafði einn æskuvinur hans Bjarka bróður, gott vinafólk mitt í dag, misst son sinn úr vöggudauða þegar hann var eins árs, einhverjum tíu árum áður. Nánast upp á dag.“

Sigga segir það hafa verið gott að geta leitað til einhvers sem hafði gengið í gegnum sömu reynslu. „Mér finnst líka gott að geta miðlað minni reynslu og sagt við fólk sem lendir í svona áfalli að þetta verði í lagi. Auðvitað verður ekkert allt í fullkomnu lagi; þetta gjörbreytir manni og er auðvitað algjör hreinsunareldur. Maður verður aldrei eins, en mér finnst gott að reyna að hugsa að það sé einhver tilgangur með öllu. Og ég er að reyna að finna hann. Kannski er tilgangurinn sá að ég geti sagt við fólk sem lendir í svona: Ég veit. Og þú ert ekki einn. Það versta sem mannskepnan gengur í gegnum er að upplifa sig alveg eina; að enginn muni skilja það sem maður hefur gengið í gegnum.“

Hægt að tengja við sorgina

Sigga segist ekki geta ímyndað sér annað en það hafi verið óbærilegt fyrir foreldra sína að horfa upp á dóttur sína og tengdason ganga í gegnum barnsmissinn eins og þau höfðu sjálf gert rúmum tuttugu árum áður. Og foreldrar hennar hafi auðvitað líka misst barnabarnið sitt, líkt og foreldrar Kalla. En hún segir þau hafa staðið þétt við bakið á sér og Kalla.

„Mamma og pabbi gerðu allt svo rétt á þessum tíma. Og reyndar bara allir í kringum okkur, við erum auðvitað einstaklega heppin með fjölskyldu og vini. En það var bara eins og mamma og pabbi hefðu fengið handbókina.“ Sigga þagnar augnablik. „Sem þau náttúrlega höfðu fengið. Þegar Bjarki bróðir dó.“

Aðspurð hvað hún eigi við með því að foreldrar hennar hafi gert allt rétt segir hún að þau hafi til dæmis aldrei spurt þau Kalla óviðeigandi eða asnalegra spurninga. „Mamma var rosa mikið að koma og taka til; gekk í það sem þurfti að gera á heimilinu. Við gátum ekki gert margt og ég var auðvitað að jafna mig eftir erfiða fæðingu. En þau pabbi komu aldrei án þess að láta okkur vita áður. Og þau bara tékkuðu á stöðunni, hvort allt væri í lagi.

Stundum upplifði ég einhverjar tilfinningar, einhver hafði kannski sagt eitthvað við mig og ég ræddi það við mömmu. Þá sagði mamma bara: Já, ég veit. Þetta á eftir að gerast. Það hjálpaði mér að geta rætt alls konar við hana sem enginn annar gat skilið.

Ég myndi samt aldrei segja sjálf við mömmu mína að ég skildi hana. Því það geri ég ekki, en ég get tengt við þessa sorg. Ég hafði sjálf til dæmis gengið í gegnum fósturlát og það er ekki sambærileg reynsla við það sem ég svo seinna upplifði. En sorgin er samt til staðar. Og það er hægt að tengja við sorgina.“

Heldurðu að það sé hægt að vinna sig út úr svona mikilli sorg? Komast yfir hana að fullu?

„Nei. Þú getur lært að funkera. Þú getur lært að treysta. Ég hugsa, í okkar tilfelli, að þegar við fáum einhvers konar niðurstöðu í málinu komumst við alla vega á næsta stig. Það er eitt að jafna sig eftir barnsmissi en svo annað að vera með svona stórt mál í gangi; sem ég held að skipti ekki bara okkur máli heldur allt samfélagið. Að svona gerist ekki aftur. Þetta kom fyrir okkur og hefur komið fyrir miklu fleiri.“

Hann var til og skipti máli

Sigga segist hafa heyrt ótalmargar sögur um eldri konur sem hafa legið banaleguna og óskað eftir að fá að tala um barnið sem þær misstu og fengu aldrei að tala um. Þær hafi jafnvel farið í gegnum lífið reiðar og sárar vegna þess að þær fengu aldrei að vinna úr ólýsanlegum sársauka. Sigga leggur þó áherslu á að fólk verði auðvitað að hafa í huga að það sé staður og stund fyrir allt og ekki viðeigandi að ræða þessi mál hvar og hvenær sem er. „En maður gleymir aldrei þessu barni sem fæddist og dó. Og maður vill ekki að heimurinn gleymi því. Fólki má heldur aldrei finnast vont að hafa minnt mig á Nóa Hrafn, eins og hefur gerst þegar ég hef hitt einhvern sem vissi að við ættum von á barni en ekki að það væri dáið. Það er aldrei vont að vera minntur á barnið sem maður átti. Ég hugsa um hann á hverjum degi. Ég gleymi honum aldrei. Ég dýrka þegar einhver segir nafnið hans. Ég vil alltaf segja Nói Hrafn. Og það er stór hluti ástæðunnar fyrir minningartónleikunum um bróður minn. Þetta er svolítið gert fyrir mömmu og pabba og bræður mína. Bjarki bróðir minn má ekki gleymast. Hann var til. Og hann skipti máli.“

Lengri útgáfa af viðtalinu við Sigríði Eyrúnu birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »