Gáfu tvö tonn af ís

Frá hátíðinni í dag.
Frá hátíðinni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Sjaldan eða aldrei hafa eins margir verið í Hveragerði og í dag þegar bæjarhátíðin Blómstrandi dagar fóru þar fram að sögn bæjarstjórans, Aldísar Hafsteinsdóttur. 

Gefin voru tvö tonn af ís.
Gefin voru tvö tonn af ís. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur verið alveg stórkostlegt. Veðrið lék við mannskapinn, það er yndislegt þegar verið er að skipuleggja svona viðburð að vera svona lánsöm með veðrið,“ segir Aldís.

Að venju sló árlegur ísdagur Kjöríss í gegn en fyrirtækið áætlar að á bilinu átta til tíu þúsund hafi bragðað á ísunum sem voru á boðstólnum og vó ísinn sem var gefinn um tvö tonn.

„Klárlega sænski surströmming og truffluísinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, spurð hvaða ísar hafi vakið mesta athygli. „Þeir fengu misjöfn viðbrögð,“ bætir hún við en Blue Moon og Fullveldisísinn svokallaði voru vinsælir meðal gesta. 

„Það er mjög mikið af fjölskyldufólki sem kemur til okkar til að njóta og vera,“ segir Aldís um bæjarhátíðina sem er 25 ára. „Fólk kemur hingað og leggur bílunum og gengur á milli hér í bænum,“ segir Aldís en mikið er af smáviðburðum víða um bæinn. 

Uppfært 22:50: Þau leiðu mistök urðu að fyrirsögn þessarar fréttar var röng er fréttin fór fyrst í loftið. Þá var fyrirsögnin á þá leið að Kjörís hefði gefið ísþyrstum gestum Blómstrandi daga „tvö þúsund tonn af ís“.

Það er ansi mikið af ís og myndi duga til að halda ísdag Kjöríss næstu þúsund árin, enda er hið rétta að fyrirtækið bauð gestum ísdagsins upp á tvö tonn af ís, af ýmsum gerðum.

Harmonikkuleikur í Hveragerði.
Harmonikkuleikur í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert