Á annað hundrað mála til kasta lögreglu

Vegfarandinn mun hafa slasast þó nokkuð þegar ekið var á …
Vegfarandinn mun hafa slasast þó nokkuð þegar ekið var á hann. mbl.is/Eggert

Alls komu upp að minnsta kosti 130 mál hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 19 í gærkvöldi. Þar á meðal voru líkamsárás, slagsmál meðal ungmenna, unglingadrykkja, heimilisofbeldi og akstur undir áhrifum, auk þess sem ekið var á gangandi vegfaranda.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að þó nokkur mál hafi verið vegna ölvunar þar sem fólk var ósjálfbjarga, og að einnig hafi þó nokkru magni af áfengi verið hellt niður eftir að það fannst í fórum unglinga undir lögaldri.

Tíu aðilar gistu fangageymslur lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu vegna ýmissa mála. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var ekið á gangandi vegfaranda sem er þó nokkuð slasaður eftir atvikið, að því er segir í tilkynningu. Mun málið vera í rannsókn.

Þá var gerð innbrotstilraun í umdæmi lögreglustöðvarinnar við Dalveg í Kópavogi, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Að minnsta kosti tvö tilvik heimilisofbeldis komu upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert