Olía í sjóinn á Fáskrúðsfirði

Olíuflekknum er haldið innan flotgirðingar við bryggjuna.
Olíuflekknum er haldið innan flotgirðingar við bryggjuna. mbl.is/Albert Kemp

Olía fór í sjóinn við höfnina í Fáskrúðsfirði nú undir kvöld, er verið var að dæla olíu um borð í uppsjávarskipið Hoffell SU-80. Á bilinu 1.000-1.500 lítrar af olíu fóru í sjóinn, segir Grétar Helgi Geirsson, formaður björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði.

Björgunarsveitarmenn hafa sett upp flotgirðingar til þess að hefta útbreiðslu olíunnar. Aðstæður til olíuhreinsunar eru sagðar með besta móti.

„Það er sumarveður hérna, blankalogn og hlýtt og fínt, svo ég held að það sé ágætis „control“ á þessu. Flekknum er haldið hérna með girðingum af björgunarsveitarbátunum og svo erum við að bíða eftir dælubíl til að dæla þess upp,“ segir Grétar.

Hann segist ekki alveg viss um hvað nákvæmlega olli því að olían fór í hafið, en svo virðist sem lögn í dæluskúr hafi gefið sig.

Albert Kemp, fréttaritari mbl.is á Fáskrúðsfirði, segir að dælubíll sé kominn á bryggjuna.

mbl.is/Albert Kemp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert