Sviplausasta útivertíð í áratugi

Málari að störfum.
Málari að störfum. mbl.is/Golli

Vegna mikillar rigningartíðar á höfuðborgarsvæðinu í maí, júní og júlí hefur sala á útimálningu verið minni en oft áður.

Málarar muna ekki eftir öðru eins sumri og stefnir allt í að verkefnum verði frestað fram á næsta ár.

Salan ekki náð flugi 

Vigfús Gíslason, framkvæmdastjóri Flügger, segir engan vafa leika á því að sumarið hafi verið það versta síðan hann byrjaði í bransanum, hvað höfuðborgarsvæðið varðar.

„Þetta hefur algjörlega verið sviplausasta útivertíðin sem hefur komið hjá okkur í einhverja áratugi,“ segir Vigfús.

Hann segir drjúgan hluta af veltu fyrirtækisins yfir sumartímann koma frá sölu á útiefnum og því hafi vætutíðin í sumar haft töluverð áhrif.

„Eins og veðurfarið hefur verið í sumar hefur sú sala ekki náð flugi suðvestanlands.“

Hluti sölunnar á útiefnum byggir á „manninum á götunni“ sem noti yfirleitt fyrri hluta sumars til að mála utanhúss. Þess vegna á hann ekki von á að ágústmánuður verði mikið betri þegar kemur að sölu á útiefni, þrátt fyrir betra veður.

Baldvin Valdimarsson, til vinstri, og Hjörtur Bergstað, stjórnarmaður hjá Málningu …
Baldvin Valdimarsson, til vinstri, og Hjörtur Bergstað, stjórnarmaður hjá Málningu hf. mbl.is/Ómar Óskarsson

Komið á óvart

Baldvin Valdimarsson, framkvæmdastjóri Málningar hf., segir sumarið hafa verið merkilega gott. Salan hafi komið á óvart.

„Miðað við hvað það var mikil rigning finnst mér ótrúlegt hvað við höfum selt mikið af útimálningu og viðarvörn en það er vissulega minna en í fyrra,“ segir hann en getur ekki nefnt neinar tölur í því samhengi.

Baldvin vill því ekki meina að ástandið í sumar hafi verið það versta síðan hann byrjaði í bransanum. Hann segir að mjög góð sala hafi verið á síðasta ári en að árið í ár hafi verið heldur lakara.

Málarar hafi engu að síður verið seigir að komast í gegnum þetta erfiða sumar.

Baldvin segir að salan hafi verið meiri núna í ágúst enda hefur vætutíðin verið heldur minni. Meðal annars sé fólk að byrja að mála palla og girðingar heima hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert