„Alvarlegur vandi“ á Seltjarnarnesi

Fjölmörg börn fá ekki pláss í aðlögun.
Fjölmörg börn fá ekki pláss í aðlögun. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er að mínu mati mjög alvarlegur vandi að það þurfi að ráða inn átta manns til þess að hægt sé að taka inn yngstu börnin,“ segir Hugrún Björnsdóttir um erfiðleika sem margir foreldrar á Seltjarnarnesi standa frammi fyrir.

Hugrún er búsett á Seltjarnarnesi og á dóttur sem fæddist í apríl í fyrra. Dóttir hennar er ein af þeim tuttugu og sjö börnum sem fá ekki pláss í aðlögun á þeim tíma sem þeim var lofað í apríl síðastliðnum.

Ástæða þess að börnin komast ekki inn í aðlögun á tilsettum tíma er mikil mannekla á nýjum deildum leikskóla bæjarins sem stendur til að opna um miðjan september. Þegar Morgunblaðið fjallaði um málið fyrr í þessum mánuði vantaði 8 starfsmenn til starfa svo hægt væri að opna yngstu deildina og fengu foreldrar sömu upplýsingar á foreldrafundi fyrir viku.

Sjötta apríl var Hugrúnu tjáð að dóttir hennar fengi pláss á leikskóla Seltjarnarness í ágúst. „Ég hringdi í leikskólann og talaði við einhvern sem var þar í forsvari. Ég vildi tryggja mig og spurði hvort ég þyrfti að hafa eitthvert plan B, hvort ég ætti að sækja um á fleiri leikskólum eða hjá dagforeldrum, svona ef þetta myndi ekki ganga upp. Viðkomandi fullvissaði mig um að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur eða gera aðrar ráðstafanir.“

Lélegt upplýsingaflæði

Hugrún segir upplýsingaflæði frá bænum hafa verið ábótavant. „Það er ljóst að við foreldrar erum ósátt við hvernig upplýsingagjöf hefur verið hagað. Við hefðum viljað fá betri upplýsingar og verið oftar upplýst um stöðuna.“

Um miðjan júní bárust fyrstu upplýsingar frá bænum um að bið eftir aðlögun myndi hugsanlega dragast eitthvað á langinn. „Þá fengum við bréf sem í segir að ekki sé hægt að gefa út nákvæma dagsetningu á því hvenær aðlögun muni hefjast vegna þess að ekki hafði tekist að manna nýju deildirnar. Svo heyrðist ekkert fyrr en þrítugasta júlí þá barst okkur bréf sem sagði að auglýst hefði verið eftir starfsfólki frá því í byrjun apríl en fáar umsóknir borist. Þá vorum við foreldrar farnir að ókyrrast mikið.“

Hugrún býst við því að bæjaryfirvöld séu að bíða eftir því að ungt fólk komi út á vinnumarkaðinn nú í byrjun september en ekki sé allra leiða leitað til að ná til unga fólksins. „Mér finnst ég ekki hafa fengið þessa fullvissu um að þau séu með allar klær úti. Þau segja að þau séu á fullu að auglýsa en ég hef til dæmis ekki séð neinar auglýsingar inni á vefmiðlinum Alfreð þar sem margir leikskólar hafa verið að auglýsa.“

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ýmsir þættir hafa haft áhrif á opnun leikskólans sem Seltjarnarnesbær ræður ekki við, uppsagnir starfsfólks, mannekla á leikskólum almennt og mikil fjölgun í bæjarfélaginu. Hugrún bendir á að afar margar umsóknir hafi borist á síðustu stundu.

„Það er eitt sem mér finnst athugavert en bærinn hefur ekkert um að segja. Í marsmánuði streymdu inn umsóknir um leikskólapláss, þegar umsóknarfrestur rann út. Þá allt í einu höfðu tuttugu umsóknir bæst við. Ég spyr mig hvort þetta sé mögulega fölsun lögheimila sem er þarna í gangi því það liggur ljóst fyrir að Seltjarnarnesbær býður betur heldur en mörg önnur sveitarfélög,“ segir Hugrún sem tekur fram að það séu einungis getgátur og erfitt að sanna fölsun lögheimilis.

Stór samfélagslegur vandi

Seltjarnarnes er þó ekki eina sveitarfélagið sem á erfitt með að taka á móti börnum í aðlögun. „Þetta er náttúrulega samfélagslegur vandi og auðvitað eru allir að reyna að redda sér. Seltjarnarnes er bara partur af mun stærri vanda og það að fólk sé mögulega að færa lögheimili sín til þess að ná í leikskólapláss er kannski bara eitt einkenni á honum.“

Baldur Pálsson, fræðslustjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að þau hjá bænum séu bjartsýn á að málið leysist fljótlega. „Það gengur hægt að ráða starfsfólk en það saxast á. Þetta er allt í áttina og við erum bara bjartsýn á  þetta leysist innan tíðar.“

27 börn, sem áður hafði verið lofað plássi í aðlögun þetta haustið bíða enn eftir staðfestri dagsetningu á inntöku. Ráðið hefur verið í nokkrar stöður síðan Morgunblaðið fjallaði um málið. „Við höfum náð  ráða deildarstjóra á deildirnar sem er náttúrulega algert lykilfólk. Það vantar svona fimm stöðugildi í það heila en það vantar lítið upp á svo að við getum opnað aðra deildina af þessum tveimur nýju deildum.“

Viðbótarkjör upp á 44 þúsund

Baldur segir bæjarfélagið hafa bætt kjör starfsfólks til þess að gera starfið meira heillandi. „Við bjóðum starfsfólki viðbótarkjör upp á 44 þúsund krónur á mánuði. Síðan erum við líka  fjölga undirbúningstímum og bæta við undirbúning starfsfólks.“

Foreldrar fengu bréf um samþykkt pláss í aðlögun skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar. Umræða hefur verið um það að fögur loforð bæjarfélagsins um pláss í aðlögun gætu tengst því að stutt var í næstu kosningar. Baldur segir það vera kjörinna fulltrúa að svara fyrir slíkt en staðreynd málsins sé sú að á síðasta kjörtímabili hafi verið samþykkt að setja meira fjármagn í leikskólamál.

„Viðbótarhúsnæði og mannskapur kostar sitt og það var ákveðið að útvega það til að halda óbreyttu þjónustustigi enda hefur mikil fjölgun verið í bæjarfélaginu. Það verður staðið við þetta allt en eins og stendur er bara verið að vinna í því. Ef þessi kostur hefði ekki verið valinn þá hugsa ég að talsvert fleiri foreldrar hefðu verið í mun meiri vanda í lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert