Ráðherrar funduðu um stöðu íslenskra flugfélaga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra fundaði í dag með fjármálaráðherra, samgönguráðherra og ráðherra ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarmála vegna stöðu íslensku flugfélaganna. Ráðherrarnir ræddu skýrslu starfshóps sem kannar kerfislæg mikilvæg fyrirtæki. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfestir í samtali við mbl.is að flugfélögin hafi ekki óskað eftir aðstoð frá íslenska ríkinu. 

Samráðshópur um kerfislæg mikilvæg fyrirtæki

„Við stofnuðum samráðshóp sem skoðar kerfislæg mikilvæg fyrirtæki. Sá hópur fór af stað í vor og hefur verið að skoða og greina þjóðhagsleg áhrif ólíkra geira og kerfislægra mikilvægra fyrirtækja,“ útskýrir Katrín og segir að í dag hafi staðan á flugmarkaði hafi verið til umræðu á ráðherrafundinum í dag.

„Við fengum í raun skýrslu frá þeim hópi um hvað hann hefur verið að gera. Það hefur verið vinna í gangi frá því í vor og við fórum yfir hana í dag. Það er auðvitað mikilvægt að greina efnahagsleg áhrif. Flugrekstur er hér orðinn töluvert umfangsmikill. Hann hefur líka áhrif á aðrar atvinnugreinar, eins og ferðaþjónustuna,“ bætir Katrín við.

Hafa ekki óskað eftir aðstoð frá ríkinu

Katrín segir að beiðni um aðstoð frá ríkinu hafi ekki borist frá íslenskum flugfélögum og að fundurinn í dag hafi verið stöðufundur. Aðspurð hvort ríkisstjórnin ætli sér að gera varúðarráðstafanir vegna stöðunnar sem kæmi upp ef flugfélögin óskuðu eftir ríkisaðstoð segir hún starfshópinn um kerfislæg mikilvæg fyrirtæki vera að skoða þá sviðsmynd að einhverju leyti.

„Það má eiginlega segja að við höfum þegar ákveðið að fara í þá vinnu þegar við settum þennan starfshóp á laggirnar í vor. Þannig að við séum með betri kortlagningu á þessum þjóðhagslegu áhrifum til að mynda,“ segir Katrín en bætir því við að íslensku flugfélögin séu einkarekin fyrirtæki á markaði og því sé ekki ríkisábyrgð á rekstri þeirra.

Niðurstaða væntanleg í haust

Katrín segir starfshópinn ekki hafa skilað niðurstöðu varðandi stöðuna á flugmarkaðinum en hún sé væntanleg með haustinu.

„Við vorum í raun að taka stöðuna á vinnu hópsins. Það eru ekki komnar niðurstöður. Starfshópurinn skilar væntanlega af sér skýrslu á haustdögum, það hefur verið rætt um september í því samhengi,“ segir hún.

mbl.is